Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ekki hægt að sjá nema 4 daga fram í tímann“

09.05.2016 - 19:43
Mynd: RÚV / RÚV
Andri Snær Magnason, sem hefur tilkynnt framboð til embættis forseta Íslands, segir að hann ætli að halda ótrauður áfram. Með framboði Davíð Oddssonar hafi línurnar orðið skarpari og meira spennandi.

„Ég held ótrauður áfram. Ég get ekki sé að maður geti reiknað meira en fjóra daga fram í tímann í þessu árferði í stjórnmálunum. Það er búið að vera mjög spennandi að fylgjast með þessu. Þetta hefur í raun verið „súrrealískt“. Stundum hefur maður þurft að klípa sig. Í morgun voru bæði Ólafur Ragnar og Davíð inni og allt í einu var Ólafur hættur við. Ég sé ekki hvernig ég get reiknað út hvernig þetta verður eftir þrjár vikur,“ segir Andri Snær.

 Línurnar skarpari og meira spennandi

Fimm sem höfðu tilkynnt framboð hættu við eftir að Ólafur Ragnar ákvað að gefa kost á sér og nokkrir, sem lágu undir feldi, höfðu ekki lengur áhuga  vegna framboðs Ólafs. Andri Snær segist ekki hafa íhugað að draga framboð sitt til baka í þessum hræringum. 

„Nei ég myndi segja að með innkomu Davíðs hafi línurnar orðið skarpari og meira spennandi. Mikið af því sem ég hef skrifað og hugsað í gegnum tíðina kemur til af áhrifum frá þessum manni,“ segir Andri Snær.

En hefði það komið Andra Snæ betur ef Ólafur Ragnar og Davíð hefðu báðir haldið áfram í framboði? Andri segir að það sé hægt að halda endalaust áfram í leikjafræðinni.

„Eins og þetta hefur verið að þróast á síðustu vikum gæti Guðni allt eins verið brottnuminn af geimverum í næsta þætti. Þannig að ég held bara mínu striki því það er ýmislegt sem mig langar að koma fram með og frambjóðendur eiga eftir að koma fram með sín mál og ræða sína framtíðarsýn. Og þar gæti ýmislegt breyst líka,“ segir Andri Snær.

Hef skýra framtíðarsýn

Ólafur Ragnar dró framboð sitt til baka í dag og segist gera það vegna þess að tveir frambjóðendur, Guðni Th. og Davíð, séu komnir fram sem hafi afburðaþekkingu á forsetaembættinu. Hann segist þó ekki vera að taka afstöðu  hvorki með þeim né öðrum frambjóðendum.

„Ég hef mjög skýra framtíðarsýn. Ég hef að sjálfsögðu ekki verið forseti áður. Vigdís Finnbogadóttir hafði eflaust ekki mikla þekkingu á forsetaembættinu og ég geri ráð fyrir að Kristján Eldjárn hafi ekki heldur verið mjög mikið inni í þeim málum. Ég held að hugmyndin við forsetaembætti sé sú að allir Íslendingar séu kjörgengir. Ég held að víðtæk reynsla hvort sem þú ert læknir eða rithöfundur, þjóðleikhússtjóri eða sjómaður komi að gagni. Ég held að allir þessir hæfileikar nýtist í þessu embætti vegna þess að það er mjög fjölbreytt," segir Andri Snær. 

Hann leggur meðal annars áherslu á umhverfismál, að samin verði ný stjórnarskrá og rækt lögð við íslenska tungu.

„Ég tel að forsetaembættið verði að standa fyrir eitthvað. Það var alveg ótvírætt á tímum Vigdísar að hún lagði fram ákveðin mál og líka ótvírætt á tímum Ólafs Ragnars að hann lagði frá ákveðna sýn. Embættið þróast þannig að það verður ákveðið hreyfiafl fyrir breytingar og forsetinn hefur aðstöðu til að tengja fólk saman. Þá er mikilvægt að vita hver sýnin er. Sumir hafa til dæmis misskilið þjóðgarðshugmyndina þannig að ég vilji loka hálendinu fyrir öllum. Ég er bara að tala um að víð eigum þessi víðerni núna og þau eru mikilvæg og dýrmæt til dæmis fyrir jeppafólk og skotveiðimenn, í raun fyrir alla. Þa Og spurningin er hvort hagsmunir Landsnets séu mikilvægari en hagsmunir heildarinnar,“ segir Andri Snær Magnason.

Rætt var við Andra Snæ í Speglinum

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV