Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki gert ráð fyrir kostnaði við ljóstengingu

13.04.2016 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Súðavíkurhreppur gagnrýnir skamman fyrirvara á kostnaðarþátttöku sveitarfélaga í verkefninu Ísland ljóstengt. Við upphaf verkefnisins hafi ekki verið gert ráð fyrir kostnaðarþátttöku sveitarfélaganna og því er ekki gert ráð fyrir kostnaði við verkefnið í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga.

Kostnaði velt yfir á sveitarfélögin

Í ályktun sveitarstjórnar er það harmað hversu stuttur fyrirvari hafi verið á umsóknarfresti sem sveitarfélögum var gefinn til að koma saman umsókn og senda inn í fjarskiptasjóð, en markaðsútboð fór fram fyrir skömmu. Sveitarstjórn telur það leiða til þess að vinnubrögð versni í verkefninu. Þá telur sveitarstjórn að með því að láta sveitarfélög sækja í pott og etja þeim þannig saman með takmörkuðum fjármunum til útdeilingar sé kostnaði við ljósleiðaravæðingu Íslands velt yfir á sveitarfélögin. Líkt og sveitarstjóri Strandabyggðar þá vekur sveitarstjórn athygli á því að augljós mismunun sé á stöðu sveitarfélaganna og varpar ljósi á að sveitarfélögin hafi mismikið bolmagn til að koma að verkefninu. Jafn brýnt og það er.

Fékk annan af tveimur styrkjum

Önnur af tveimur umsóknum Súðavíkurhrepps í fjarskiptasjóð var samþykkt og er framlag Súðavíkurhrepps 6,3 milljónir. Þá verður búinn til viðauki í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps telur nauðsynlegt að viðbótarfjármagn verði sett í verkefnið svo hægt verði að ljúka því, óháð því hversu þéttbýlt eða dreifbýlt svæðið er, og tryggja þannig jafnræði á milli ólíkra búsetu- og atvinnuskilyrða.