Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki forsvaranlegt að ráðast í aðgerðir

03.11.2018 - 10:04
Mynd: Landhelgisgæslan / RÚV
Ekki er talið forsvaranlegt að ráðast í aðgerðir vegna strands flutningaskipsins Fjordvik í Helguvík að svo stöddu vegna slæmra veðuraðstæðna. Ákvörðun um næstu skref verður tekin síðar í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Sviðsstjóri sviðs náttúru, hafs og vatna segir töluverða olíu um borð í skipinu og reynt verið að koma í veg fyrir umhverfisslys.

Samráðsfundur með fulltrúum Landhelgisgæslunnar, Lögreglunnar á Suðurnesjum, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og almannavarna stendur enn.

Fréttastofa heyrði í Ólafi Jónsson, sviðsstjóra sviðs náttúru, hafs og vatna, sem segir að lögð verði áhersla á að koma í veg fyrir umhverfisslys. Töluverð olía sé í skipinu. Hann segir hættu á því að olía fari í sjóinn ef skipið skemmist frekar en varðskipið Þór fylgist með frá sjó en lögregla og björgunarsveitir í landi.  „Við þurfum að bíða þar til veðrinu slotar, þar til hægt verður að aðhafast eitthvað,“ segir Ólafur. 

Jón Árelíus Ingólfsson, rannsóknarstjóri hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, var ekki kominn á staðinn þegar fréttastofa náði tali af honum í morgun en hann var þá að undirbúa sig til að fara á vettvang.

Í spilaranum hér að ofan má sjá myndskeið sem tekið var úr TF GNÁ, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem bjargaði skipverjunum og hafnsögumanninum. Þar sést vel hversu erfiðar aðstæður voru á strandstað og hvernig skipið liggur utan í grjótinu.  Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, er á staðnum og hún segir sjóinn ganga yfir skipið. 

Mynd: Landhelgisgæslan / RÚV

Hér að ofan má sjá myndskeið sem Bragi Valgeirsson, tökumaður, tók á vettvangi í nótt með Dagnýju Huldu Erlendsdóttur, fréttamanni, sem fylgdist með björgunaraðgerðum.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að staðan hafi ekkert breyst síðan fjögur í nótt og það verði að teljast jákvætt. Óttast er að leki sé kominn að skipinu og að sjór sé kominn í vélarrúmið. Það hefur þó ekki fengist staðfest. Davíð segist gera ráð fyrir að einhverjar skemmdir séu á skipinu miðað við hvernig það sláist utan í grjótið. Tíu til fimmtán björgunasveitarmenn eru á staðnum til að tryggja vettvang.

Fjórtán manna áhöfn og hafnsögumanni var bjargað um borð í þyrlur Landhelgisgæslunnar og Varðskipið Týr er komið á vettvang.

Hér að neðan má sjá myndskeið sem tökumaður Víkurfrétta tók af björgunaraðgerðum í nótt.

Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson / Víkurfréttir