Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Ekki forsendur fyrir sparisjóðum

20.08.2011 - 17:33
Samþykkt var á stjórnarfundi Sparisjóðs Norðfjarðar í vikunni að bjóða allt stofnfé í sjóðnum til sölu. Lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands segir ekki forsendu til þess að halda áfram rekstri sparisjóða, tímabært sé að draga bankakerfið saman.

Undanfarin misseri hafa sparisjóðir lagt upp laupana einn af öðrum. Margir telja eftirsjá að sparisjóðum enda hafa þeir allt frá upphafi verið í nánari tengslum við byggðir og samfélag en aðrar fjármálastofnanir. Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, tekur undir þetta sjónarmið en bendir þó á að sparisjóðina hafi oft skort bolmagn til þess að þjóna atvinnurekstri.

"Því er ekki að neita að auðvitað verður ákveðinn söknuður, því þessar stofnanir gerðu ákveðna hluti í sínum byggðarlögum. Þó þær hafi ekki haft slagkraft til stórra hluta. Til dæmis á Norðfirði, þá var það fyrst og frems hlutskipti Landsbankans að standa undir stóra atvinnulífinu þar," segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir því ekki ástæðu til þess að reyna að viðhalda sparisjóðakerfinu. "Ekki í dag, vegna þess, til viðbótar við allt sem ég hef sagt, þá er mikil umframafkastageta í fjármálakerfinu á íslandi. Og það hefur ekki skroppið saman í líkingu við það sem það þarf að gera til þess að geta boðið ódýra þjónustu."