Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ekki fleiri hótel í miðbæinn

12.03.2014 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður borgarráðs Reykjavíkur vill ekki fleiri hótel í miðbæinn en þau sem þegar eru á áætlun. Borgarfulltrúi Vinstri grænna segir að borgin geti ekki hafnað fyrirspurnum um hóteluppbygginu í miðbænum.

Á næstu þremur árum verða tekin í notkun rúmlega 1.180 ný hótelherbergi miðsvæðis í Reykjavík. Langstærstu verkefnin eru ný hótel við Höfðatorg og Hörpu, en einnig ný hótel á Hverfisgötu 103, á Hljómalindarreitnum og í Landsímahúsinu. 
Reykjavíkurborg hélt í dag opinn fund um atvinnuþróun og uppbyggingu í borginni og þar kvaðst formaður borgarráðs ekki vilja fleiri hótel í gamla miðbæinn en eru nú þegar á prjónunum.

Dagur B Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur segir að nú sé komið nóg. „Það eru mörg hótel í gamla bænum í pípunum. Það er að hluta til nauðsynlegt til þess að ferðaþjónustan ryðji ekki út íbúum úr íbúahverfum en við viljum beina frekari hóteluppbyggingu inn á önnur svæði.“

Dagur nefnir svæðið við Hlemm, meðfram Suðurlandsbrautinni, Kirkjusand og einnig að hótel rísi í nágrannasveitarfélögum. 

Sóley Tómasdóttir, borgafulltrúi Vinstri grænna segir að auðvitað þurfi fleiri hótel í Reykjavík, „en við þurfum að passa að þau verði ekki öll á sama svæðinu. Því verður ekki breytt með því að formaður borgarráðs komi í sjónvarpsviðtal og tilkynni það. Við þurfum að fara yfir þá verkferla og þá ramma sem við höfum til að geta breytt þessu og það er verkefni skipulagsráðs sem formaðurinn situr ekki í.“

Sóley bendir á að borgin geti ekki hafnað fyrirspurnum um frekari hóteluppbyggingu í miðbænum. Hún gagnrýnir að borgin haldi slíkan fund í aðdraganda kosninga án þess að aðrir kjörnir fulltrúar hafi möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. „Og ég velti fyrir mér hvort þarna sé verið að notafæra sér mögulega aðstöðu sína til að koma kosningaáróðri á framfæri.“