Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ekki er vitað hvað olli slysinu

21.07.2013 - 13:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli í morgun þegar rússneskri þotu hlekktist á í lendingu. Einn maður slasaðist og vélin er mikið skemmd.

Það var um klukkan hálf sex í morgun að vélinni hlekktist á við austurenda flugbrautarinnar í Keflavík. Vélin, sem er rússnesk af gerðinni Sukhoi Superjet 100, var við æfingar þegar óhappið varð. Fimm menn voru um borð, fjórir sluppu ómeiddir en einn ökklabrotnaði. Ekki er enn vitað hvað olli slysinu í morgun en unnið er að rannsókn. Þó virðist sem hjól vélarinnar hafi ekki farið niður. Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, stýrði aðgerðum á vettvangi í morgun. „Það komu boð frá Neyðarlínu kl. 05:39 í morgun, neyðarstig gulur samkvæmt flugslysaáætlun, og flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll var virkjuð og boð send út til hundruða manna um að hér hefði orðið flugslys,“ segir Skúli. 

Er vitað á þessu stigi málsins hvað olli þessu slysi? „Þegar þessi boð komu út og allir þessi viðbragðsaðilar fara á vettvang, þá er líka rannsóknarnefnd samgöngumála kölluð út og rannsóknardeild lögreglustjórans á Suðurnesjum kölluð út. Þessi aðilar komu fljótlega á vettvang og hafa verið að vinna að rannsókn málsins í allan dag og því verður fram haldið í dag. Og það er algjörlega ótímabært að tjá sig um hvað gerðist þarna,“ segir Skúli.