Ekki eins og ég ætli að heita straubolti

31.05.2018 - 09:01
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson. - Mynd: Af Facebook-síðu Sigurðar Hly / Af Facebook-síðu Sigurðar Hly
Mannanafnanefnd synjaði í gær beiðni Sigurðar Hlyns Snæbjörnssonar um að fá að breyta nafni sínu í Sigríður. Þegar hann var í móðurkviði áttu foreldrar hans von á því að barnið væri stúlka sem þau höfðu ákveðið að gefa nafnið Sigríður, eftir ömmu hans. Þegar þeim svo fæddist drengur gáfu þau honum nafnið Sigurður í staðinn.

Sigurður Hlynur kveðst hafa orðið hissa á synjun Mannanafnanefndar. „Ég hélt að það væri komið fordæmi fyrir því að nöfn gætu verið bæði karlkyns og kvenkyns. Ég var því bara hissa. Nefndin vinnur eftir lögum sem eru pínu skrítin,“ sagði Sigurður Hlynur í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann rifjaði upp að dómstólar hefðu komist að þeirri niðurstöðu að kona mætti heita Blær. Hann benti á að samkvæmt stjórnarskrá skuli konur og karlar njóta jafnréttis í hvívetna. „Af hverju má ég ekki bara ráða því hvað ég heiti? Það er ekki eins og ég ætli að heita Straubolti.“

Kominn er tími til að lög um mannanöfn taki mið af breyttum tímum, að mati Sigurðar Hlyns. Einu sinni hafi þótt sjálfsögð venja að konur hefðu ekki kosningarétt en því hafi verið breytt. „Við gerðum ýmislegt hérna áður fyrr sem var bara alls ekki í lagi og við löguðum það. Þetta er bara eitt af því.“ Hann segir að nafnamálið skipti ekki sköpum fyrir hann en að það ætti þó að vera sjálfsagt mál að hann fengi að bera það nafn sem hann sjálfur kysi.

Vinir og fjölskylda Sigurðar Hlyns hafa stutt hann dyggilega í baráttunni. Hann hefur þó orðið var við skiptar skoðanir í samfélaginu. Til dæmis hafi verið fjallað um málið á vef DV og ýmislegt hafi verið látið flakka í ummælum við fréttina. „Ef maður fer í stríð við íhaldssemi og þröngsýni þá þarf maður að vera tilbúinn til að takast á við íhaldssemi, þröngsýni og fordóma og ég er alveg til í það.“

Sigurður Hlynur er bóndi og er önnum kafinn í sauðburði. Að honum loknum ætlar hann að kanna þann möguleika að fara lengra með málið og leita réttar síns fyrir dómstólum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi