Ekki búið að ráðstafa 186 þúsund tonnum

13.03.2014 - 09:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Ennþá á eftir að ráðstafa tæpum 200 þúsund tonnum úr þeim makrílkvóta sem ákvarðaður var í samkomulagi Færeyinga, Noregs og Evrópusambandsins. Íslendingar gætu gengið inn í samkomulagið og samið um hluta þess kvóta.

Heildarveiðikvóti makríls sem Færeyingar, Norðmenn og Evrópusambandið sömdu um í gær nemur einni komma 24 milljónum tonna. Það er um 350 þúsund tonnum meira en veiðiráðgjöf þessa árs hljómaði upp á. Íslendingar höfðu sagst vera reiðubúnir til að teygja sig upp í rúmlega eina milljón tonna en það væri allt of hátt að fara upp í 1,3 milljónir tonna eins og Norðmenn vildu. Svo virðist sem vilji Norðmanna hafi orðið ofan á í samningunum.

Af þessum kvóta fá Færeyingar 156 þúsund tonn á þessu ári, Norðmenn fái 279 þúsund tonn og aðildarríki Evrópusambandsins fá 611 þúsund tonn til. 

Haft er eftir Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, að búið sé að setja kvóta til hliðar fyrir Íslendinga - kæri þeir sig um hluta af makrílsamningnum.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra veltir því fyrir sér í morgun, hver hlutur Íslands sé. „Nú eru Evrópusambandið og Noregur, samkvæmt fréttum, búin að taka að sér einhliða alla ráðgjöf sem ICES hafði gefið út. Hvað er þá eftir handa okkur? Ætlum við að ganga inn í samkomulag sem gengur út á að stunda ofveiði á makríl? Þetta þarf vitanlega að skýra miklu betur en það er sorglegt að þarna skuli Evrópusambandið enn og aftur hafa forgöngu um að fara af stað með einhvers konar ofveiði og það að Norðmenn skuli taka þátt í því er alveg dæmalaust.“ Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Morten Olsen, talsmaður danska sjávarútvegsráðuneytisins, staðfesti að eftir sé að úthluta 186 þúsund tonnum. Það er vel rúmlega sá hlutur sem Íslendingar gerðu sér vonir um að semja um áður en þeir duttu út úr samningaviðræðunum. 

Það styður því þá fullyrðingu Mariu Damanaki að Íslendingar geti enn komið að samningnum. Ekki náðist í Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegsráðherra fyrir fréttir.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi