Þetta kemur fram í þættinum Forystusætinu sem er á dagskrá RÚV að loknum fréttum klukkan 22. Benedikt Jóhannesson, þáverandi formaður Viðreisnar sagði í Forystusætinu 9. október að Sjálfstæðisflokkurinn væri búinn að gefa nauðsynleg svör varðandi uppreist æru dæmdra kynferðisbrotamanna. Björt Ólafsdóttir segir sinn flokk, Bjarta framtíð, líta mjög ólíkt á málið. Ekki sé hægt að segja að búið sé að gera málið upp.
„Og við setjum á oddinn að við þurfum að ná þessari smán úr okkar samfélagi. Kynbundið ofbeldi og hvernig við meðhöndlum það sem stjórnmálamenn og sem fulltrúar almennings er til skammar. Og það þarf að hætta því.“
Fylgi Bjartrar framtíðar dalað mikið
Björt framtíð var stofnuð upp úr framboði Besta flokksins árið 2012. Flokkurinn fékk rúmlega sjö prósenta fylgi og fjóra þingmenn kjörna í Alþingiskosningunum í fyrra. Björt framtíð myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn, en sleit samstarfinu átta mánuðum síðar vegna þess sem flokkurinn kallaði alvarlegan trúnaðarbrest í samstarfinu. Samkvæmt könnunum mælist Björt framtíð með tveggja til þriggja prósenta fylgi, og næði ekki manni á þing, verði það úrslitin.
Hvernig ætlar flokkurinn að bæta stöðu sína þessa síðustu daga fyrir kosningar og með hverjum vill flokkurinn starfa? Þessum spurningum og fleirum svarar Björt Ólafsdóttir í Forystusætinu sem er aðgengilegur í heild sinni hér og sýndur á RÚV að loknum fréttum kl. 22.