Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki búið að ákveða að greiða bætur

28.09.2018 - 14:03
Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV
Einhugur var í ríkisstjórninni um að biðja fyrrum sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra þá sem átt hafa um sárt að binda vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála afsökunar á því ranglæti sem þau hafa mátt þola. Eftir helgi verður skipaður starfshópur sem á að leiða viðræður og sáttaumleiðanir við aðila máls og aðstandendur vegna þess miska og tjóns sem þau hafa orðið fyrir. Forsætirsráðherra segir að ekki sé búið að ákveða að greiða þeim bætur.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ekki hafi verið ákveðið hver veiti starfshópnum formennsku. 

„Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að við förum yfir það núna hvað við getum gert til að bæta þennan skaða,“ segir Katrín í viðtali við RÚV.

Þessi yfirlýsing ríkisstjórnin og afsökunarbeiðni á hún við alla sem voru dæmdir 1980, líka mál Erlu Bolladóttur?

„Nú hefur auðvitað ekki verið dæmt í því máli þannig að það bíður hugsanlega enn frekari málsmeðferðar. En eins og má lesa út úr afsökunarbeiðninni þá á hún bæði við um fyrrum sakborninga, aðstandendur þeirra og alla aðra þá sem hafa átt um sárt að binda vegna þessa máls,“ segir Katrín.