Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki breytingar að sjá við brúna

04.10.2015 - 08:55
Mynd með færslu
 Mynd: Ingibjörg Eiríksdóttir - RÚV
Ekki er að sjá að miklar breytingar hafi orðið við undirstöður brúarstólpa Eldvatnsbrúar í nótt, segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Í gær hafði Skaftárhlaup grafið undan öðrum brúarstólpanum svo hann hékk að hluta í lausu lofti.

Brúnni var lokað fyrir allri umferð í gær og svo verður áfram næstu daga og vikur, þar til tekist hefur að treysta undirstöður brúarinnar. Sveinn Rúnar var kominn á vettvang snemma í morgun. Þá var of dimmt til að meta aðstæður við brúarstólpann en þegar leið á morguninn kom í ljós að ekki hafði orðið sýnileg breyting við brúarstólpann yfir nóttina. 

Mjög hefur dregið úr krafti hlaupsins. Það er nú innan við 300 rúmmetrar á sekúndu við Sveinstind, einn tíundi þess sem var þegar mest gekk á. Í Eldvatni streyma um 400 rúmmetrar fram á sekúndu, fimmtungur þess sem mest gerðist. Ástæða þess er að vatnið leitar að miklu leyti annað. Þannig hækkar nú vatn í dyngjum vestur við Hunkubakka. Óljóst er hversu mikið vatnið breiðir úr sér á þeim slóðum. Þar á það aðeins nokkra sentímetra upp á veginn og þyrfti því ekki að taka langan tíma að flæði yfir veginn, dreifist vatnið ekki yfir stærra svæði.

Skaftáreldahraun hefur vart undan að sía jökulgorm í vatninu eins og það hefur gert í 230 ár. Vatnið kemur fram sem hreint lindavatn undan hraunjaðrinum en nú er hraunið orðið fyllt að stórum hluta og yfirborðið farið að þéttast, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Því eru allar líkur eru á að jökulvatnið nái fram af brún hraunsins út á Landbrotshraunið, undir Eldhrauninu, og renni eftir farvegum lindalækjanna.

 

Slagveður er á flóðasvæðinu, og bætist því mikil úrkoma við það vatn sem kemur undan jökli. Búist er við mikilli rigningu í dag og á morgun og rigningu næstu daga.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV