Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Ekki bara brosandi fylgifiskur“

Mynd: RÚV / RÚV
„Ég leitast við að sýna að ég er ekki bara brosandi fylgifiskur í fallegum fötum.“ Þetta sagði Eliza Reid forsetafrú í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna á hádegisverðarfundi hjá Félagi kvenna í atvinnulífinu. „Ég vil ekki bara vera þekkt sem konan hans Guðna jafnvel þótt ég geti verið stolt af því hlutverki,“ sagði Eliza ennfremur.

Eliza Reid forsetafrú talaði á fundi Félags kvenna í atvinnulífinu sem haldinn var í tilefni þess að í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Hún rekur fyrirtækið Iceland Writers Retreat. „Svo ég vitni í vinsælan leiðtoga í heimalandinu mínu. Nú er árið 2017 og ég ætla ekki að hætta að vinna þó að maki minn hafi ráðið sig í nýja vinnu,“ sagði Eliza. 

„Skyndilega er ég nú komin í sviðsljósið vegna einhvers sem maðurinn minn hefur gert. Ég vil ekki bara vera þekkt sem konan hans Guðna jafnvel þótt ég geti verið stolt af því hlutverki. Ég leitast við að sýna að ég er ekki bara brosandi fylgifiskur í fallegum fötum. Ég reyni að verða við eins mörgum beiðnum um ávörp, viðtöl, fundi og önnur verkefni og ég get. Úr því að ég er svona sérlega heppin að vera gift þjóðhöfðingja þá ætla ég að nota þá stöðu til að reyna að vekja athygli á mikilvægum málefnum,“ sagði Eliza í ræðu sinni.

Þá nefndi Eliza að í fyrirhugaðri opinberri heimsókn forsetahjónanna til Noregs ætli hún að halda ræðu um kynjajafnrétti hér á landi.