Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ekki ástæða til olíuleitar á norðurslóðum

02.06.2015 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia - RÚV
Ekki er hægt að brenna nema þriðjungi olíubirgða heimsins ef ná á markmiðum um að hlýnun jarðar fari ekki yfir tvær gráður að meðaltali árið 2050. Engin ástæða sé því til þess að leita að nýjum olíuauðlindum, hvað þá á norðurslóðum.

Þetta segir Kelly Rigg, framkvæmdarstjóri Varda Group, en hún tók til máls í morgun í Þjóðminjasafninu á málstofunni: Áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar. Hún sagði engar rökræður þurfa að eiga sér stað lengur um hlýnun jarðar. Niðurstöður rannsókna, þar á meðal skýrsla Alþjóðanefndar sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreygingar (IPCC), væru ótvíræðar. Nú sé tími til að bregðast við.

Rigg sagði í fyrirlestri sínum að árið 2014 væri það heitasta síðan að mælingar hófust og síðasti áratugur sá heitasti. Þá nefndi hún að hlýnun gæti tvisvar sinnum hraðar á norðlægum slóðum og hagsmunir Íslands því miklir. Rigg sagði enn fremur að ekki væri hægt að bregðast við olíuslysum með árangursríkum hætti á norðlægum slóðum vegna hitastigs og aðstæðna.

Riggs vísaði til ályktunar Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) um að tveir þriðju þekktra olíuauðlinda þurfi að haldast í jörðu. Ef ná eigi alþjóðlegum markmiðum um að hnattræn hlýnun frá upphafi iðnbyltingar verði ekki meiri en 2°C árið 2050. Ef losun gróðurhúsalofttegunda og hlýnun heldur áfram með sama hraða og nú er því spáð að hún verði á bilinu 3-4°C árið 2050.

Riggs er stofnandi og framkvæmdarstjóri Varda Group, alþjóðlegra baráttusamtaka á sviði umhverfisverndar.