Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki ástæða til að vígbúast í Hafnarfirði

25.02.2016 - 19:23
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Lögreglan segir ótta gæta meðal íbúa í Hafnarfirði eftir að ráðist var tvívegis á konu á heimili hennar í þessari og síðustu viku. Fólk hafi jafnvel vígbúist. Að sögn lögreglunnar hefur fólk ekki ástæðu að óttast.

Ráðist var á konuna á heimili hennar við Móabarð á mánudaginn í síðustu viku og aftur tæpri viku síðar.  Lögreglan verst allra frétta af rannsókn málsins, en segir hana  í fullum gangi og á viðkvæmu stigi, en það er rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík fer með rannsókn þess. Fólk er slegið óhug vegna þessa máls og ótti hefur gripið um sig meðal íbúa og segist lögreglan hafa orðið vel vör við þennan ótta.  

„ Já fólk er að setja sig í samband við okkur er að reyna að afla upplýsinga og leita eftir því hvernig það á að bregðast við. Við skiljum talsverðan ótta hjá fólki út af þessum tveimur málum sem eru búin að vera í gangi. Og við höfum vitneskju um það að fólk er að safna að sér bareflum við útidyr eða inni á heimilinu til þess að geta tekið á móti ógninni eða draga niður gluggatjöld eða slökkva ljósin ogo láta lítið bera á þannig að það sé eins og enginn sé heima, svara ekki dyrabjöllum og þar fram eftir götunum,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Hann segir lögregluna skilja vel ótta fólks, en segir að ef lögreglan telji fólk vera í hættu þá grípi hún til aðgerða og láti fólk vita. Ekki sé ástæða til að safna að sér bareflum og slökkva ljós. 

„Hvernig getið þið sagt að það sé ekki ástæða til að óttast?“
„Við byggjum það á því sem við höfum í máliun um hverju sinni og metum það svo. Það er nú ástæðan fyrir því að við erum að reyna að slá á þennan ótta,“ segir Margeir.

Hann segist ekki geta tjáð sig um hvort árásirnar hafi verið tilviljunarkennar eða beinst meðvitað gegn viðkomandi, né hvort konan sem fyrir þeim varð njóti sérstakrar verndar. 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV