Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ekki ástæða til að rannsaka Útlendingastofnun

22.08.2016 - 15:52
Útlendingastofnun
 Mynd: ruv
Ekki er ástæða til að Umboðsmaður Alþingis rannsaki, að eigin frumkvæði, meðferð Útlendingastofnunar á umsóknum um mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum.

Þetta kemur fram í bréfi umboðsmanns til Útlendingastofnunar sem birt var á vef embættisins í dag. Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá stofnuninni vegna umfjöllunar í fjölmiðlum af flutningi 27 einstaklinga af landi brott, þar af tveggja fjölskyldna með veik börn. Umboðsmaður fundaði með starfsmönnum Útlendingastofnunar og væntir þess að þeir taki mið af aðfinnslum hans. Hann fylgist áfram með þróun mála og taki til frekari athugunar ef ástæða sé til. 

Umboðsmaður hefur verið í samskiptum við stjórnvöld vegna afgreiðslutíma í málum hælisleitenda síðan 2013. Illa gekk að ná markmiðum um að málsmeðferðartími væri að jafnaði ekki lengri en 90 dagar. Verklaginu hefur síðan verið breytt og afgreiðslutíminn styttur umtalsvert. Í bréfi umboðsmanns segir að Útlendingastofnun hafi lýst umbótum sem gerðar hafi verið í starfsemi stofnunarinnar að undanförnu. Þá sé verklag um umsóknir um dvalarleyfi á grundvelli heilbrigðisástæðna í fastari skorðum en áður.