Ekki ást við fyrstu sýn

Mynd: RÚV / RÚV

Ekki ást við fyrstu sýn

27.11.2017 - 12:15

Höfundar

Leiðir Stefáns Karls Stefánssonar og Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur lágu saman í skemmtiþætti á RÚV rétt eftir síðustu aldamót. Þetta var þó ekki ást við fyrstu sýn segja þau – heldur áunnin ást. Þau segja að hláturinn skipti öllu máli þegar gengið er í gegnum erfiðleika. „Hugarfarið skiptir meira en 50% máli,“ segir Stefán Karl sem glímt hefur við krabbamein.

Stefán Karl og Steinunn Ólína ræddu ástina, Bandaríkjadvöl, framleiðslu kvikmynda, tekílahraðlestina, vonbrigði, væntingar og nýtt viðhorf til lífsins við Gunnar Hansson í þættinum Gestaboði.

Þau töluðu um hvernig þau kynntust og upphaf sambandsins, sem var áunnin ást, en ekki við fyrstu sýn. Þau kynntust fyrst á RÚV þegar Steinunn Ólína var með skemmtiþátt. „Ég fékk þig oft sem skemmtikraft, ég var nú ekki orðin skotin í þér þá,“ segir Steinunn Ólína. „Þú fékkst mig nú oft, eitthvað hefurðu séð við mig,“ svarar Stefán Karl kankvís.

Mynd: RÚV / RÚV
Steinunn Ólína fékk þá félaga Stefán Karl og Hilmi Snæ í þáttinn Milli himins og jarðar 2001. Þar „píndi“ hún Stefán til að taka nokkur dansspor.

Eitt sinn deildu þau leigubíl úr partýi og Stefán Karl hafnaði boði Steinunnar Ólínu að koma inn til hennar. „Hún skellti hurðinni á leigubílnum á eftir sér svo fast að rafgeymirinn aftengdist í húddinu og leigubílstjórinn varð alveg brjálaður. Steinunn eiginlega talaði ekki við mig í ár eftir þetta,“ segir Stefán. En eftir að þau fóru að hittast þá áttuðu þau sig á því að þau áttu mjög vel skap saman og deildu sama húmornum. „Það lætur mig enginn hlæja eins og Stefán og það er mjög mikils virði,“ segir Steinunn. „Þegar maður gengur í gegnum erfiðleika, eins og við höfum gert undanfarið ár, þá skiptir skopskynið og það að geta litið abstrakt á hlutina, mjög miklu máli.“

Hollywood

Eftir að þau höfðu verið saman í tæp þrjú ár þá ákváða þau að flytja til Bandaríkjanna. Steinunn Ólína var búin að taka þá ákvörðun að hætta í leikhúsinu, eftir næstum 20 ára feril. Stefán langaði til að reyna fyrir sér sem leikari í Bandaríkjunum, eftir að hafa leikið eitt aðalhlutverkið í Latabæjarþáttunum sem voru komnir í sýningu út um allan heim. En það var talsvert sjokk fyrir hann að átta sig á því hversu lítill fiskur hann var í þeirri risastóru tjörn. „Ég kom allt of drambmikill og öruggur með mig inn í þetta umhverfi, íslenska „þetta reddast“ viðhorfið.“ Hann segist hafa áttað sig fljótlega á því að hann myndi ekki slá í gegn sem leikari í Hollywood. Hann fór í fjöldann allan af leikprufum og þrátt fyrir að hafa oft komist nálægt því, þá lét stóra tækifærið bíða eftir sér.

Hann ákvað því að snúa sér að kvikmyndaframleiðslu og komst ansi nálægt því að koma á koppinn leikinni kvikmynd í fullri lengd vestanhafs um skipbrot Suðurlandsins á jóladag 1986. Hann var kominn með dreifingarsamning við Sony og Michel Shane sem gerði Catch Me If You Can og I Robot átti að framleiða en verkefnið datt upp fyrir þar sem fjármögnun brást en Landsbankinn, sem hafði lofað að fjárfesta í myndinni, dró sig skyndilega út úr verkefninu þegar lausafjárkreppan 2006 hófst. Það kom illa við þau hjónin fjárhagslega. „Þau létu okkur fá 20 milljónir í „vasapeninga“ eins og þeir kölluðu það, og við fórum af stað með þessa vasapeninga til að láta skrifa handrit og vinna undirbúningsvinnu.“ Þegar bankinn dró sig út úr verkefninu felldi hann þá skuldirnar, einhverjar milljónir, á hjónin persónulega. „Við gengum auðvitað bara í það að borga og standa skil á okkar skuldbindingum,“ segir Steinunn Ólína og bætir við að þarna hafi þau upplifað sitt persónulega hrun tveimur árum áður en fjármálakreppan skall á.

Aldrei verið skúffuskáld

Steinunn uppgötvaði í Bandaríkjunum hæfileika sína og hvött til að skrifa sem kom henni mjög á óvart. „Ég hafði aldrei verið skúffuskáld, aldrei svo mikið sem skrifað setningu á blað og haldið að ég ætti að gera eitthvað með það.“ Hún skrifaði bókina Í fylgd með fullorðnum auk pistla fyrir Morgunblaðið og aðra miðla. Þar að auki eignaðist hún tvö börn á meðan þau voru í Bandaríkjunum, Júlíu og Steina, en henni fannst gott að geta verið til staðar á heimilinu fyrstu árin hjá þeim. Hún segir að þrátt fyrir erfið tímabil, fjárhagslega og mikið álag með börnin, þá hafi þetta líka verið mjög góður tími og veðurfarið í Kaliforníu hafi átt vel við hana.

Loks kom Trölli

Hlutirnir fóru að ganga betur eftir að Stefán fékk aðalhlutverkið í söngleiknum The Grinch, eða Trölli stal jólunum, eftir Dr. Seuss.

Þau rétt áttu fyrir flugmiðanum fyrir hann til New York, þar sem prufan fór fram og þegar þangað var komið þá leist honum ekkert á blikuna þar sem tugir annarra leikara voru mættir í sömu erindagjörðum og hann. „Þeir þekkjast allir og eru að faðmast og hlæja. Ég einn úti í horni, það var þá sem ég hugsaði „Þetta er búið spil, við þurfum að fara aftur til Íslands“.“ En til að gera langa sögu stutta þá fékk hann hlutverkið sem hann lék svo á hverju ári í 9 ár um öll Bandaríkin, tæplega 600 sýningar.

Lífið fer á hvolf

En lífið kemur stöðugt á óvart og haustið 2016 fengu þau fréttir sem settu allt í uppnám. Stefán greindist með krabbamein og við tók barátta við það með öllu sem því tilheyrir. Allt í einu hafði heimurinn breyst, vandamál sem virtust stór skiptu engu máli. Það sem skipti máli var að standa saman, lifa í núinu og njóta þess og þeirra sem standa manni næst.

Steinunn segir að þetta sé öðru vísi fyrir Stefán, sem er sjálfur að glíma við meinið, en fyrir þau sem standa honum næst. „Ég get ekki læknað Stefán. Ég þarf að sætta mig við þann veruleika og sætta mig við veruleikann eins og hann er og gera það besta úr honum. Og það er ekki alltaf auðvelt. Því vitundin um hið hræðilega er alltaf rétt fyrir aftan mann.“

Lífið er núna

Eftir stórar aðgerðir og erfiða meðferð hafa þau séð lífið og allt sem því fylgir í öðru samhengi og í rauninni forgangsraðað öllu upp á nýtt. „Ég er hér enn, ári seinna. Einn Íslendingur greindist á sama tíma og ég með svipað krabbamein; hann dó í febrúar. Þannig að það er ekkert sjálfsagt að ég sé hérna,“ segir Stefán Karl. Hjónin eru nýkomin úr tæplega mánaðarlöngu ferðalagi til Mexíkó með börnunum sínum og þau fóru hringinn í kringum landið í húsvagni með bróður Stefáns og fjölskyldu hans.

Við erum að reyna að gera sem mest saman og búa til minningar saman. Ég veit ekki hvað ég á langt eftir, það getur verið allt frá ári upp í tvö ár. Allt umfram tvö ár er bara kraftaverk.

Stefán Karl er að klára að skrifa bók um líf sitt og sín störf og undirbýr eins manns sýningu, uppistand sem hann ætlar að frumsýna í mars sem heitir Stefán Karl grefur sína eigin gröf. Steinunn Ólína er að stíga aftur á leiksvið eftir margra ára hlé í leikritinu Efi í Þjóðleikhúsinu. Gunnar Hansson ræddi við hjónin í þættinum Gestaboð.

 

Tengdar fréttir

Innlent

„Lífið er núna“