Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ekki ákveðið með framtíð lögreglumannsins

13.01.2015 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort lögreglumaður, sem dæmdur var fyrir harkalega handtöku í fyrra, verði ráðinn aftur til starfa. Von er á ákvörðun mjög fljótlega.

Í desember þyngdi Hæstiréttur refsingu yfir lögreglumanninum, sem var ákærður fyrir líkamsárás eftir handtöku á Laugavegi í júlí 2013. Hæstiréttur dæmdi manninn í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða fórnarlambinu 430 þúsund krónur í miskabætur. Þá var hann dæmdur til að greiða 300 þúsund króna sekt. Héraðsdómur hafði áður dæmt manninn til að greiða sektina og til að greiða fórnarlambinu ríflega 200 þúsund krónur.

Atvikið átti sér stað þegar lögreglumaðurinn handtók konu á Laugaveginum og náðist það á myndband. Maðurinn hefur verið frá störfum síðan sumarið 2013 á hálfum grunnlaunum. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort hann verður ráðinn aftur. „Það er ennþá á mínu borði og það er enn ekki búið að taka ákvörðun í því máli en hún er væntanleg mjög fljótlega,“ segir Sigríður Björk.

Aðspurð vill hún ekki tjá sig um það hvort það sé eðlilegt að lögreglumaður starfi áfram innan lögreglunnar eftir að hafa verið sakfelldur fyrir brot í starfi. „Ég vil bara ekki tjá mig um málið að svo stöddu.“