Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki ákærður fyrir nauðgun

05.09.2018 - 14:29
Mynd með færslu
Vestmannaeyjar Mynd: RÚV
Maðurinn sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir árás á konu í Vestmannaeyjum fyrir tveimur árum er ekki ákærður fyrir nauðgun, samkvæmt upplýsingum frá Héraðsdómi Suðurlands. Hann er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, blygðunarsemisbrot og að koma konunni í þannig ástand að hún var bjargarlaus.

Málið vakti mikinn óhug í september 2016. Kona hafði verið skilin eftir nakin og mjög illa leikin í húsgarði í Vestmannaeyjum aðfaranótt 17. þess mánaðar. Hún var meðvitundarlítil þegar hún fannst og svo köld að lögregla taldi að hefði hún ekki fengið aðstoð hefði hún getað látist. Hún var svo bólgin í andliti að hún gat ekki opnað augun. Hún var flutt með þyrlu á Landspítalann í Fossvogi.

Var grunaður um nauðgun

Snemma var greint frá því að talið væri að maðurinn hefði nauðgað konunni og síðan hefur verið vísað til málsins sem naugðunarmáls í opinberri umræðu. Fréttastofa greindi frá því í gær að búið væri að gefa út ákæru í málinu en Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari vildi ekki greina frá því nákvæmlega fyrir hvað, enda væri þinghald málsins lokað.

Fréttastofa hefur nú fengið upplýsingar um það frá Héraðsdómi Suðurlands fyrir brot á hvaða ákvæðum hegningarlaga maðurinn er ákærður. Þeirra á meðal er ekki 194. grein laganna, sem kveður á um nauðgun.

Varðar þungum refsingum

Maðurinn er ákærður fyrir aðra málsgrein 218. greinar laganna, sem kveður á um sérstaklega hættulega líkamsárás. Refsiramminn fyrir slíkt brot er 16 ára fangelsi, þótt hann hafi aldrei verið nýttur nema að hluta.

Hann er einnig ákærður fyrir brot gegn 209. grein laganna, sem hljóðar svo: „Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum“. Minniháttar brot gegn þessu ákvæði varðar sektum eða allt að hálfs árs fangelsisvist.

Þá er hann ákærður fyrir brot gegn fyrstu málsgrein 220. greinar laganna. Samkvæmt því varðar það allt að átta ára fangelsi að koma manneskju í það ástand að hún sé án bjargar, eða að yfirgefa manneskju í slíku ástandi sem rétt hefði verið að sjá um.

Að lokum er maðurinn ákærður fyrir minniháttar líkamsárás. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hvort það er vegna annarrar árásar á sömu konu eða árásar á aðra manneskju.

Óttaðist að rannsóknarhagsmunum hefði verið spillt

Maðurinn sem er ákærður er fæddur árið 1993. Hann hlaut nýverið skilorðsdóm fyrir ránstilraun. Hann sat í varðhaldi um skeið vegna árásarinnar á konuna, en áður hafði héraðsdómur hafnað kröfu lögreglunnar í Vestmannaeyjum þar um og sleppt manninum lausum. Hæstiréttur sneri þeirri niðurstöðu svo við. Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri sagði í fréttum á þeim tíma að hún óttaðist að rannsóknarhagsmunir gætu hafa farið forgörðum vegna þess að maðurinn gekk laus í millitíðinni.

Meðferð málsins hefur tekið drjúgan tíma. Fyrst reyndist erfitt að ná tali af konunni, sem hafði farið utan eftir árásina. Lögreglurannsókninni lauk í október í fyrra og málið var þá sent í ákærumeðferð en Héraðssaksóknari vísaði því aftur í rannsókn í febrúarlok. Þeirri framhaldsrannsókn lauk í sumar. Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands 13. september.