Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ekki áhyggjur af skammstöfunum

28.06.2013 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Alþingi samþykkti í morgun þingsályktunartillögu forsætisráðherra um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila. Forsætisráðherra gefur lítið fyrir gagnrýni alþjóðlegra stofnana á aðgerðirnar. Formaður Samfylkingarinnar segir að þverpólitísku samráði um skuldamálin hafi verið hætt.

Þingsályktunin er í tíu liðum og hljóðar meðal annars upp á að skipa starfshópa um niðurfærslu á höfuðstóli verðtryggðra lána og um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Tillagan var samþykkt samhljóða með stuðningi stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar, en aðrir flokkar sátu hjá.

Sigmundur Davíð segir að með þessu sé hafin formleg vinna við það sem stefnir í að vera mestu úrbætur í þágu skuldsettra heimila nokkurs staðar í heiminum eftir að efnahagskrísan hófst árið 2007. Tillögurnar hafa verið nokkuð gagnrýndar af OECD og stjórnarandstöðunni. Gagnrýni þeirra síðarnefndu kemur Sigmundi Davíð ekki á óvart.

„Hvað hins vegar OECD varðar, og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og allar þessar stofnanir þá hef ég ekki miklar áhyggjur af því hvað hinum og þessum skammstöfunum finnst um þetta frumvarp og raunar kæmi það mér mjög á óvart að slíkar stofnanir væru opnar fyrir svona róttækum aðgerðum." 

Sigmundur Davíð býst við að útfærslur verði ljósar þegar þing kemur saman í haust. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar er ósáttur við vinnubrögð stjórnarflokkanna í málinu, einkum samráðsleysi við aðgerðirnar.

„Það er auðvitað ekki þannig að ríkisstjórnarmeirihlutinn geti ákveðið spurningarnar sem sérfræðinganefndirnar fái, valið sérfræðingana og svo eigi samráðið að hefjast þegar búið er að móta tillögurnar hér í þingsal. Það er verklag sem er bara þykistuleikur," segir Árni Páll.