Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki aðalatriði hver verður borgarstjóri

01.06.2018 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki var annað að sjá en að gangi saman með þeim flokkum sem ræða myndun meirihluta í Reykjavík. Fundahöldum um meirihlutaviðræður um borgarstjórn í lauk rúmlega fjögur síðdegis í dag og oddvitar sem fréttastofa ræddi við mjög ánægðir með gang viðræðna. Dagur B. Eggertsson stefnir að því að vera borgarstjóri en enginn sem fréttastofa ræddi við telur það vera aðalatriði hver taki við embættinu. Flokkar hafa ekki sett hver öðrum afarkosti. Áfram verður fundað á mánudaginn.

„Þær ganga bara mjög vel, þakka þér fyrir,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, um gang viðræðna í dag. „Við erum búin að fara svolítið á dýptina í nokkrum málum og höldum áfram á mánudaginn.“ Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, tekur í sama streng. „Við erum sammála í mjög mörgum málum og sjáum fyrir okkur flotta og umhverfisvæna borg.“

„Við erum að fara inn í hellings vinnu næstu fjögur ár,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar. „Það skiptir máli að það sé stöðugleiki og góður andi til að vinna að þörfum borgarbúa og borgarinnar.“

Dagur stefnir að því að vera borgarstjóri

Aðspurður hvort hann stefni að því að vera borgarstjóri svarar Dagur: „Ég hef ekkert leynt því að undanförnum vikum að ég hef stefnt að því en mér finnst hvorki að það né annað í verkaskiptingunni eigi að vera eitthvað aðalatriði.“

Dóra Björt telur ólíklegt að hún sækist eftir borgarstjórasætinu og telur það ekki vera aðalatriðið. Þá segir Þórdís Lóa að Viðreisn hafi nálgast viðræðurnar án þess að koma fram með afarkosti um borgarstjórastólinn. „Við fórum ekki af stað með það hérna, komum ekki að þessum viðræðum með neina afarkosti og ætlum ekki að gera það héðan í frá.“

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV