Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekkert varð af ferðum Ribsafari til Eyja

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsvarsmenn Ribsafari hafa orðið við tilmælum Samgöngustofu um að hætta við ferðir milli Landaeyjarhafnar og Heimaeyjar um helgina. Þetta staðfestir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í samtali við fréttastofu.

Ribsafari gerir út báta í skemmtisiglingar en hafði ekki tilskilin leyfi fyrir fólksflutningum. Fyrsta ferð fyrirtækisins á Þjóðhátíð var áætluð í dag, en Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn, segir að ekki sé vitað til annars en að hún hafi fallið niður. 

Hátíðarhöldin hafi að öðru leyti gengið vel og engin stærri mál komið upp. Nokkur fíkniefnamál hafi komið inn á borð lögreglu, en þó færri en í fyrra og engin þeirra sérstaklega alvarleg. 

„Það hefur verið verið virkilega rólegt í dag. Ljóst er að rigningin hefur haft sitt að segja og fólk verið minna á ferðinni,“ segir Jóhannes. Búist sé við fleira fólki í Herjólfsdal í kvöld og spár gera ráð fyrir að það fari að stytta upp.

Emilía Sara Ólafsdóttir Kaaber
Fréttastofa RÚV