Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekkert sem benti til strokhættu

17.04.2018 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að ekkert hafi bent til þess að strokhætta hafi verið af Sindra Þór Stefánssyni sem strauk af Sogni síðastliðna nótt og flaug til Svíþjóðar í morgun. Páll segir að skipulagður flótti úr opnu fangelsi, eins og því sem Sindri var vistaður í, sé nýmæli á Íslandi. Hingað til hafi strok úr slíkum fangelsum takmarkast við menn sem hafi glímt við Bakkus og gefið dauðann og djöfulinn í afleiðingar þess að fara á fyllerí.

Harðasti kjarninn í fangelsi

Sindri var í opnu fangelsi þar sem hann gat haft samband við aðra í gegnum tölvu og síma. Þar er minna eftirlit en í lokuðum fangelsum og hvorki rimlar né girðingar til að halda aftur af föngum ef þeir reyna að flýja.

Páll Winkel var í viðtali í Kastljósi í kvöld þar sem hann ræddi strok Sindra.

„Það var ekkert sem benti til þess að það væri strokhætta af þessum manni,“ sagði Páll. Hann sagði mikilvægt að hafa í huga hvernig samsetning fangahópsins í íslenskum fangelsum væri. Lengi hefði þurft að forgangsraða inn í fangelsin auk þess sem sumir fullnusta dóma sína með samfélagsþjónustu. „Fyrir vikið er bara harðasti kjarni manna að afplána fangelsisrefsingar inni í fangelsunum. Samsetning fangahópsins í fangelsunum í dag eru menn sem eru dæmdir fyrir manndráp, meiriháttar kynferðisbrot gagnvart fullorðnum og börnum, síbrot og svo framvegis, og svo hinn hluti einstaklinganna, menn sem eru grunaðir um brot, það er að segja menn sem sæta gæsluvarðhaldi meðan mál klárast fyrir dómi.“

Páll sagði að hafa þyrfti í huga að gæsluvarðhald væri ekki sama og gæsluvarðhald. Til dæmis væru þeir sem sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna alltaf vistaðir á Hólmsheiði. Aðrir í gæsluvarðhaldi væru vistaðir annars staðar.

Hundrað prósent frelsisskerðing

Páll sagði að þeir sem væru vistaðir i opnum fangelsum væru einstaklingar sem væru ekki hættulegir umhverfi sínu og væri treyst til að vera ekki lokaðir bak við lás og slá. Hann andmælti því að menn væru frjálsir í opnu fangelsi. „Það er hundrað prósent frelsisskerðing fólgin í því að vera vistaður í opnu fangelsi.“ Páll sagði að taka þyrfti mið af ýmsu þegar ákveðið væri hvar og hvernig menn væru vistaðir í gæsluvarðhaldi, meðal annars brotaferill og heilsa.

„Það sem ég get sagt er að fyrirkomulagið í opnum fangelsum er þannig að það er borið meira traust til manna. Það eru ekki rimlar eða múr utan um fangelsið. Gæslan er minni, það er ekki sami eftirlitsbúnaður,“ sagði Páll um aðstæðurnar sem Sindri strauk úr. „Hann gat eins og allir aðrir fangar sem ekki sæta einangrun vegna rannsóknarhagsmuna hringt í þann sem honum sýnist. Svoleiðis er það og það á að vera svoleiðis.“

Aðspurður hvaða fangaverðir hefðu verið að gera þegar Sindri strauk svaraði Páll: „Fangaverðirnir voru að gera það sem þeir gera venjulega, að fylgjast með húsinu.“ Hann segir fyrirkomulagið vera það að fangaverðir fylgja föngum inn í herbergi. Svo sé húsinu lokað og þegar opnað er næsta dag er ástand viðkomandi athugað.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd

Skipulagður flótti nýmæli

„Við höfum aldrei haft svona að því er virðist skipulagðan flótta úr opnu fangelsi á Íslandi. Þetta er nýtt á Íslandi,“ sagði Páll um strok Sindra. Hann segir að áður hafi menn strokið af opnum fangelsum að Sogni og Kvíabryggju vegna þess að þeir hafi glímt við fíkn. „Menn hafa gefið dauðann og djöfulinn í allt saman, farið út fyrir fangelsið, dottið í það og verið hirtir næsta dag. Þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum að því er virðist vera skipulagðan flótta. Gerðum við mistök. Það má vel vera. Ég er að fara yfir það með mínu fólki.“

Myndavélar eru við Sogn. Farið hefur verið upptökur. „Það er hægt að greina það með góðum vilja,“ svaraði Páll um hvort Sindri sæist flýja. „Þetta er mjög ógreinilegt. Myndavélakerfið þarna er ekki mjög fullkomið. Þetta er ekki öryggisfangelsi eins og Hólmsheiði og Litla Hraun.“

Mikil áhrif af stroki

Vera manna í opnu fangelsi byggir á því að þeim sé treystandi og að þeir láti sig ekki hverfa. „Allir sem brjóta þessa reglu fara í lokað fangelsi auk þess sem strok getur haft áhrif á reynslulausn manna,“ sagði Páll.

„Maður getur ekki hundrað prósent lesið huga allra sem eru í fangelsum ríkisins. Við getum vissulega metið ýmislegt en það er ekki alltaf hægt að reikna út gjörðir manna,“ svaraði Páll því hvort mat Fangelsismálastofnunar hefði ekki brugðist.

Breyti vonandi ekki opnum fangelsum

Páll sagði að taka þyrfti á stroki Sindra og fara yfir málið. Honum hugnaðist þó ekki að þetta yrði til þess að fangavörðum og eftirlitsvélum yrði fjölgað í opnum fangelsum. Það gengi þvert gegn tilgangi þeirra. „Þetta er vont mál og ég vona að það hafi ekki þær alvarlegu afleiðingar að það fækki föngum í opnum fangelsum því það væri vont skref.“ Páll sagði að lengi hefði verið unnið að því að draga úr neikvæðum áhrifum langrar innilokunar í fangelsi. Með þessu hafi verið unnið að því að draga úr hættu á því að fangar brjóti af sér aftur eftir að þeim er sleppt úr haldi.

Óviss um áhrif á rannsókn

Páll sagðist ekki vita hvaða áhrif strok Sindra hefði á rannsókn málsins. Hann tók þó fram að Sindri hefði ekki verið i gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Að auki væri vandséð hverja hann gæti verið í sambandi við eftir flóttann úr fangelsi sem hann hefði ekki getað verið í sambandi við áður.