Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekkert samkomulag um heróínlaust Ísland

Mynd með færslu
 Mynd: Psychunaught - Wikimedia Commons
Í tugi ára hefur því verið velt upp hvort heróín fari að ryðja sér til rúms á íslenskum fíkniefnamarkaði. Lengi var svarið neitandi og því jafnvel haldið fram að fíkniefnasalar á Íslandi hefðu af hugsjón sameinast um að halda landinu heróínlausu. Nú eru blikur á lofti. Markaðurinn hefur breyst og á örfáum árum hefur fjölgað verulega í hópi þeirra sem sprauta sig með sterkum ópíóíðum. Þetta kom fram á fundi SÁÁ klúbbins. Lögreglumaður telur umræðu um fíkniefnamál of grunna.

Innflutningur: Allar forsendur fyrir hendi

Karl Steinar Valsson,  yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að hann yrði ekki hissa ef farið yrði að flytja heróín til landsins í auknum mæli. Það séu allar forsendur til staðar. Meira framleitt af efninu í Afganistan, meira framboð af því í Evrópu og Bandaríkjunum. Þá sé fjöldi skipulagðra brotahópa með ítök bæði hér og erlendis sem geti smyglað því til Íslands. Stærsta forsendan sé þó eftirspurnin, hún sé til staðar. „Stór hópur neytenda hefur verið í neyslu á efnum sem hafa svipaða eiginleika og heróínið. Það er þess vegna, að okkar mati, hægt að bjóða upp á stöðugt framboð á þessum efnum hingað. Sá þáttur ýtir undir það að það sé líklegt að þessi efni komi á íslenskan markað. Aðstæður hér eru raunverulega orðnar þannig að það er alls ekki ólíklegt að við förum að sjá það.“

epa05267413 Afghan farmers extract raw opium at a poppy field in caparhr distract of Nangarhar, Afghanistan, 19 April 2016. Raw opium can be processed into heroin. Afghanistan is listed as the world's largest opium producer.  EPA/GHULAMULLAH HABIBI
 Mynd: EPA
Framleiðsla í Afganistan hefur aukist.

Karl Steinar segir lögreglu hafa handlagt eitthvað af heróíni hér en ekki mikið, stærri sendingar sem hafi verið á leið til landsins, hafi verið handlagðar erlendis. Ekki liggi fyrir hvort það heróín hafi verið ætlað íslenskum markaði að hluta eða í heild. 

Salarnir ekki lengur sérhæfðir

Karl Steinar gefur lítið fyrir orðróm um að fíkniefnasalar á Íslandi hafi tekið höndum saman til að koma í veg fyrir innflutning heróíns. „Þetta er eitthvað sem er talað um að hafi verið fyrir einhverjum tíma síðan, það getur verið að það hafi verið einhvern tímann en í dag á þetta alls ekki við. Fíkniefnasalar eru fyrst og fremst að horfa til leiða til að græða. Skipulagðir brotahópar nota bara allar þær leiðir sem eru til staðar á hverjum tíma og þau efni sem eru til staðar á hverjum tími. Það er kannski ein af þeim breytingum sem hafa orðið. Lengi vel var það þannig að hópar voru búnir að skilgreina sig voru eingöngu í innflutningi á tilteknum efnum frá tilteknum svæðum. Nú fer það bara eftir aðstæðum á hverjum tíma. Það er áberandi að efni komi til Íslands frá Spáni, minna frá Hollandi en áður, það hefur færst aðeins til. Það er þróun sem hefur líka átt sér stað annars staðar í Evrópu. Bandaríkin og Kanada eru svo að koma inn hjá okkur, ekki endilega hjá öðrum Evrópuþjóðum. Hóparnir eru bara að bjóða upp á öll efni sem þeir hafa aðgang að á hverjum tíma, þeir eru hættir að sérhæfa sig í því að bjóða bara upp á eitthvað ákveðið.“ 

Úr umfjöllun Kveiks um skipulagða glæpastarfsemi.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Karl Steinar Valsson.

Hættulegum fentanýl-afleiðum oft blandað í heróín

Heróín er um margt líkt þeim sterku verkjalyfjum sem fíklar hér á landi sprauta í æð. Breytist þá eitthvað ef það verður flutt hingað í stórum stíl? Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir á Vogi, nefnir tvennt. „Það verður í fyrsta lagi meiri afbrotastarfsemi tengd þessu og myndi þá tengjast annarri afbrotastarfsemi eins og mansali, vændi og öðru slíku sem vel er þekkt í kringum þetta. Það myndi aukast og hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir okkar viðkvæma hóp. Í annan stað eru það þessi nýju efni. Þau eru vaxandi hluti af heróínmarkaðinum og öllum ólöglega vímuefnamarkaðnum og eru mun hættulegri.“ 

Hann nefnir til dæmis að fentanýl afleiðum sé oft blandað saman við heróín, þær séu mjög hættulegar og geri neytendum erfitt um vik að meta stærð skammta sem þeir taka. „Þær valda flestum dauðsföllum núna í Bandaríkjunum, fentanýl-afleiður sem er blandað saman við heróín.“

Sex neyttu heróíns daglega í æð

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Færst hefur í aukana að fíklar sprauti ópíóíðum í æð.

Það hefur fjölgað mjög í hópi þeirra sem leita á Vog vegna alvarlegrar ópíóíðafíknar, í fyrra voru þeir yfir 200. Flestir þeirra nota morfínskyld lyf. Einungis sex sjúklingar sögðust neyta heróíns í æð daglega, fjórir þeirra voru af erlendum uppruna. Þórarinn telur að átak í því að fækka lyfjaávísunum á sterk verkjalyf á sama tíma og fíklum fjölgar geti orðið til þess að greiða götu heróíns inn á íslenskan markað. „Þetta er ekki góð blanda og við erum einmitt á því svæði núna, það er verið að draga úr ávísunum en nýgengi er að aukast og hópurinn að stækka.“

En er þá ekki rétt leið að draga úr ávísunum? 

„Jújú,  til lengri tíma litið er það en núna á þessum tímapunkti erum við á hættuástandi vegna þess að þetta gæti haft alvarlegar afleiðingar. Þá þurfum við að bregðast við þeim vanda sem skapast vegna þess að þetta er að koma og vera á varðbergi gagnvart því að það sé verið að koma með þessi efni inn á markaðinn.“ 

Útþynnt umræða

En hvers vegna hefur vandinn aukist hér? Skrifast það að einhverju leiti á lögregluna, að hún hafi ekki náð að uppræta vandann? Að stjórnvöld hafi ekki gert henni það kleift með fjárveitingum? Karl Steinar segir þetta ekki svo einfalt. Það skorti á dýptina í umræðu um fíkniefnavandann, bæði inni á Alþingi og úti í samfélaginu, hún sé útþynnt. „Þetta er samfélagslegt vandamál sem er miklu flóknara en svo að það sé hægt að segja að það sé bara heilbrigðiskerfið eða bara lögreglan, þetta er miklu stærra mál og við höfum aðeins forðast að horfa á það sem slíkt. Mér finnst við ekki hafa horft réttum augum á þann vanda sem hefur blasað við á hverjum tíma þannig að þetta hefur vaxið." Karl Steinar segir það galla við umræðuna um fíkniefnamál að það sé alltaf ráðist á manninn, fólk bregðist við með sama hætti og villisvín eru þekkt fyrir að bregðast við. Þannig kæmi honum ekki á óvart ef einhverjir vildu kenna lögreglunni um að breytingar hafi orðið á fíkniefnamarkaði.

En að hvaða leyti finnst honum nálgunin hafa verið röng? „Lykilatriðið á að vera að horfa á hvernig við getum hjálpað fólki sem hefur ánetjast þessum efnum, það á að vera meginathygli okkar. Fólk þarf að bíða eftir því að komast í meðferð ef það vill komast út úr þessu. Á meðan verður það kannski harðara í neyslu. Neyslumódelið hefur líka breyst, ýmis áróður í gangi um skaðleysi ýmissa efna, fólk er að prófa og hefur svo misst tökin á því, um leið og það kemur slaki á því að það sé rétt athygli á þennan málaflokk þá fjölgar neytendum og því bara fylgir ýmislegt.“

Karl Steinar telur samfélagið í heild ekki hafa áttað sig almennilega á alvarleika vandans. „Hvernig er umræðan niðri á Alþingi þar sem lögin eru þó sett, lögin sem okkur er ætlað að vinna eftir. Þessi málaflokkur er það alvarlegur að hann á að fá þá athygli sem hann á skilið, það er það sem ég leyfi mér að gagnrýna, hann hefur ekki náð á þann stað að fólk átti sig á alvarleikanum, vegna allra þeirra einstaklinga sem standa að baki,  þeirra sem við missum úr samfélaginu vegna ólöglegra efna og sölu og dreifingu á lyfseðilsskyldum lyfjum.“

Í erindi sínu á fundinu ræddi Karl Steinar meðal annars áform stjórnvalda um að leggja fram frumvarp um neyslurými, það væri margt óljóst. Hann spurði hvort þar ætti að leyfa neyslu allra efna í rýminum og hvort skilgreina eigi einhvers konar frísvæði umhverfis neyslurýmin. „Þessi umgjörð öll þarf að vera hrein og klár að okkar mati, hvað má fara fram þar og svo framvegis. Lagalega umhverfið þarf að vera sett fram í þann búning að það standist skoðun.“ 

Þá sagði hann að í umræðunni hafi verið áberandi áhersla á að lögreglan skipti sér sem minnst af neytendum fíkniefna, raunin sé sú að flestir sem neyta efna selji þau líka. 

Samskipti lögreglunnar við ráðuneytin segir hann betri nú en nokkru sinni. Þá segir hann jákvætt að stigin hafi verið skref til að gera lögreglu kleift að beita sér í auknum mæli gegn peningaþvætti, „sem er auðvitað grunnurinn að brotastarfseminni, það er þessi ágóði.“ Evrópska lögreglan hefur gefið út að lögreglan nái einungis að leggja hald á 2% þeirra fjármuna sem fara um hendur skipulagðra glæpahópa.