Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekkert samkomulag um einkasjúkrahús

22.07.2016 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd: Google earth
Ekkert samkomulag hefur verið gert við íslensk heilbrigðisyfirvöld um einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, segir heilbrigðisráðherra sem heyrði fyrst um hugmyndina í fréttum í gær.

Fjárfestar vilja reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ. Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ undirritaði samkomulag um lóð fyrir sjúkrahúsið og sjúkrahótel í gær og er gert ráð fyrir því að það verði álíka dýrt og nýr Landspítali. 
Bæði settur landlæknir og heilbrigðisráðherra heyrðu af málinu fyrst í gær. 
 

„já ég heyrði fyrst af þessum fjárfestingaráformum í fréttum ykkar."

Henri Middeldorp, fjárfestir sagði í fréttum í gær að samkomulag hefði verið gert við íslensk heilbrigðisyfirvöld og að ekki stæði til að sækjast eftir íslenskum læknum.  Kristján Þór kannast ekki við slíkt samkomulag. 
 

„Við höfum ekki gert neitt samkomulag eins og ég skil fréttirnar þá er þarna áform um uppbyggingu 1000 manna vinnustaðar, það höfum við hvorki heyrt af né rætt."

Sjúkrahúsið er fyrir útlendinga en íslendingar geta leitað þar lækninga ef þeir greiða fyrir þær sjálfir.

 
Kristján segir að það séu áform og fyrirætlanir sem gangi þvert á áratuga stefnumörkun."

 

„Það eru allir stjórnmálaflokkar mjög harðir á því að við eigum ekki að byggja hér upp tvöfalt heilbrigðiskerfi og áform mín eru ekki í þá veru að breyta neinu í þeirri ágætu stefnumörkun."

Settur landlæknir sagði í hádegisfréttum að óhjákvæmilega hefði sjúkrahúsið mikil áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi. 

 

„Ef af yrði er það alveg ljóst eins og settur landlæknir sagði myndi þetta hafa mikil áhrif ég hefði nú viljað kynna mér hugmyndirnar og sjá eitthvað út a hvað þetta gengur áður en ég fer að tjá mig nokkuð um innihaldið."