Pósthúsinu á Eiðistorgi var líka lokað í dag og á morgun verður opnuð ný afgreiðsla við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavíkur. Húsið við Pósthússtræti er í eigu leigufélags. Leigan var há og aðgengi, bæði fyrir viðskiptavini og vörusendingar, ekki eins og best varð á kosið.
Sakna pósthússins
Eflaust eiga margir eftir að sakna pósthússins við Pósthússtræti. Að sögn Harðar Jónssonar, framkvæmdastjóra pósthúsasviðs Póstsins, hafa viðskiptavinir látið söknuð sinn í ljós.
„Við höfum alveg heyrt af viðbrögðum og svo var ég nú bara hérna rétt áðan þegar kom ein af þessum síðustu kúnnum hérna og var að tjá mér að hún væri nú bara frekar sár út í þetta allt,“ segir Hörður. Laga þurfi fyrirtæki að breyttum aðstæðum. „Við erum búin að vera að breytast úr bréfafyrirtæki í pakkafyrirtæki og erum mikið að afhenda sendingar. Allt aðgengi hérna í Pósthússtræti, bæði vöruflutningar og fyrir viðskiptavini, er bara svolítið erfitt. Við ætlum að flytja okkur um set á Hagatorg þar sem öll aðstaða og aðgengi verður mun betra en hérna.“
Hljóp til að upplifa sögulega stund
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir býr í Frakklandi en bjó áður í Vesturbænum og átti þá oft erindi á pósthúsið. „Ég heyrði í útvarpsfréttatímanum í hádeginu að pósthúsið væri að loka þannig að ég hljóp eins og fætur toguðu til þess að vera hér á þessari sögulegu stund, á ákveðinni stund nostalgíu og eftirsjár í þessu fallega húsi,“ sagði Guðfríður sem nýtti tækifærið í dag og sendi pakka til vinkonu í Belgíu.