Ekkert öruggt í þessu

Mynd: FIFA / FIFA

Ekkert öruggt í þessu

13.06.2018 - 16:18
Það fer ekki fram hjá neinum um þessar mundir að heimsmeistaramótið í knattspyrnu er á næsta leiti. Hákon Jóhannesson verður sérlegur knattspyrnuspekingur Núllsins á meðan öllu þessu stendur og byrjaði á því að fara yfir nokkur grunnatriði varðandi mótið.

Fyrsti leikur mótsins fer fram nú á fimmtudaginn, 14.júní, og er á milli gestgjafanna frá Rússlandi og Saudi Arabíu. Leikurinn hljómar í sjálfu sér ekkert sérstaklega spennandi og Rússar ættu að vera sterkari, segir Hákon. 

Augu allra, í það minnsta allra landsmanna, beinast hins vegar að leiknum sem að fram fer á laugardaginn, 16.júní, þegar strákarnir okkar mæta Messi og félögum í liði Argentínu.

„Það er ótrúlega áhugavert að við séum að mæta þessari þjóð, á þessu móti, á þessum tímapunkti,“ segir Hákon, „þetta er auðvitað lið sem að spilaði úrslitaleik síðasta heimsmeistaramóts,“ bætir hann við en Argentínumenn töpuðu fyrir Þjóðverjum 1-0 í úrslitaleiknum fyrir fjórum árum og þurftu að sætta sig við annað sætið á mótinu.

epa06772042 Argentina's Lionel Messi controls the ball during the international friendly soccer match between Argentina and Haiti at La Bombonera stadium in Buenos Aires, Argentina, 29 May 2018.  EPA-EFE/David Fernandez
 Mynd: EPA

Hákon segir Argentínu vissulega vera sigurstranglegri aðilan og ráðleggur fólki að hófstilla væntingar sínar og njóta þess að fylgjast með. Messi er vissulega einn besti, ef ekki besti knattspyrnumaður í heimi en það er oft talað um liðsheildina sem styrkleika íslenska landsliðsins. „Auðvitað er það ekki gott fyrir okkur Íslendinga ef að Messi hittir á góðan dag, en sömuleiðis er það ekki gott fyrir Argentínu ef að liðsheildin okkar hittir á góðan dag. Það er ekkert gefið í þessu.“

Talað hefur verið um D-riðilinn sem einn af jafnari riðlum mótsins, en auk Argentínu munu strákarnir mæta Nígeríu og Króatíu. Króatíu höfum við mætt oft á síðustu árum og unnum síðasta leik sem að við spiluðum við þá, hins vegar höfum við aldrei leikið á móti Nígeríu.

H-riðillinn er líka spennandi að sögn Hákonar en þar má finna fjórar þjóðir frá fjórum mismunandi heimsálfum, Pólland, Senegal, Kólumbíu og Japan. „Þetta eru þjóðir sem að maður veit ekki endilega mikið um og verður gaman að fylgjast með,“ segir Hákon.

Hákon endaði á því að velja sitt uppáhalds HM-lag, en þar kom í hans augum ekkert annað til greina en HM-lagið frá árinu 1998, Carnaval du Paris.

Hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni í spilararnum hér að ofan.