Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekkert nýtt í aðferðum Cambridge Analytica

22.03.2018 - 09:04
Mynd: RÚV / RÚV
Hulda Þórisdóttir, stjórnmálasálfræðingur, segir að greiningarfyrirtækið Cambridge Analytica, sem talið er hafa misnotað gögn um notendur Facebook til að hafa áhrif á kosningahegðun þeirra, hafi í raun ekki gert neitt annað en auglýsingastofur og stjórnmálaflokkar hafi hingað til gert til að ná til kjósenda.

Fjölmiðlar um allan heim hafa í vikunni fjallað málið en Cambridge Analytica er sakað um að hafa nýtt sér upplýsingar um fimmtíu milljónir notenda Facebook til að sníða skilaboð fyrir kosningabaráttu Donalds Trump árið 2016.

Hulda var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 en þar sagði hún að gögn Cambridge Analytica hefðu byggt á persónuleikaprófi sem fjöldi fólks tók á Facebook. Staðreyndin sé aftur á móti sú að sjaldan séu tengsl milli persónuleika fólks og stjórnmálaskoðana þess og því hafi ekki verið hægt að nota gögnin í þessum tilgangi.

„Þetta var bara ekki kerfi sem gerði neitt gagn. Þannig að öll þessi læti um að þarna hafi verið notaðar sálfræðilegar upplýsingar til að ná til okkar í gegnum undirmeðvitundina, eða höfða til okkar dýpsta ótta, eru ekki réttar. Cambridge Analytica var ekki að gera neitt annað en Demókratar eða önnur fyrirtæki,“ segir Hulda.

Hún segir málið í raun vera ákveðna afhjúpun á því hvernig kosningaherferðir fara fram.

„Þetta hefur ekki góð áhrif á traust fólks á lýðræðið. En mögulega hefur þetta góð áhrif og er sterkara ákall á verndun persónuupplýsinga. Fólk passar sig enn betur á netinu en áður og er kannski meðvitaðra um hvaða verðmæti felast í þeirra fótspori á netinu og á samfélagsmiðlum.“ 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV