Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ekkert nýtt hjá Netanjahú

Mynd með færslu
 Mynd:
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, segir að ekkert nýtt hafi komið fram í ræðu sem Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, flutti í öldungadeild Bandaríkjaþings í gær.

Bandaríkjamenn, Bretar, Frakkar, Þjóðverjar, Rússar og Kínverjar hafa um hríð freistað þess að ná samkomulagi við Írana um að þeir hætti við kjarnorkuáætlun sína. Stórveldin hafa heitið því að aflétta refsiaðgerðum ef samningar takist. Netanjahú sagði í öldungadeild bandaríska þingsins í gær að kjarnorkuáætlunin greiddi frekar leið þeirra að kjarnorkuvopnum, en að hindra hana. Hann sagði írönsk stjórnvöld hafa í hyggju að komast í ráðandi stöðu í Mið-Austurlöndum og að kjarnorkuáætlunin væri notuð til að kúga og stjórna með ógnarvaldi. Það væri í raun ógn við heimsbyggðina alla.

Obama sagði að Netanjahú hafi ekki komið með neinar tillögur í ræðu sinni en BBC greinir frá því heimsókn hans hafi verið umdeild, honum hafi verið boðið af þingmanni Rebúblikana án þess að það hafi verið rætt við forsetann. Nokkrir þingmenn fögnuðu ræðu Netanyahu ákaft, risu úr sætum og klöppuðu forsætisráðherranum lof í lófa. Demókratar gagnrýndu þó margir ræðuna. Nacy Pelosi, leiðtogi minnihluta demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins sagðist hafa verið gráti næst, ræðan hefði verið móðgandi fyrir Bandaríkin.

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV