Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ekkert nautakjöt í nautaböku

27.02.2013 - 13:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekkert nautakjöt er í nautaböku frá Gæðakokkum í Borgarnesi þrátt fyrir að bakan sé í innahaldslýsingu sögð innihalda þrjátíu prósent af nautahakki. Þetta er meðal þess sem kom út úr rannsókn Matvælastofnunar á sextán vörum þar sem kanna átti hvort hrossakjöt væri í þeim án þess að þess væri getið.

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunnar. Þar kemur einnig fram að engin af þeim sextán vörum, sem Matvælastofnun kannaði, hafi uppfyllt allar kröfur um merkingar.

Í innihaldslýsingu á nautabökunni frá Gæðakokkum, segir meðal annars að fyllingin innihaldi þrjátíu prósent nautahakk í fyllingu. Sem átti að vera helmingur af þyngd vörunnar. Hún innihélt ekkert kjöt. Lambahakkbollur, framleiddar af sama aðila fyrir Kost sem sagðar voru  með lamba-og nautakjöti innihéldu eingöngu lambakjöt.

Þessum tveimur málum hefur verið vísað til rannsóknar og ákvörðunartöku hjá viðkomandi heilbrigðiseftirliti en heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur þegar farið fram á að Nautabökurnar verði innkallaðar og er frekari aðgerða að vænta.

Ágúst Örn Guðmundsson, framleiðslustjóri hjá Gæðakokkum, vísaði á forstjóra fyrirtækisins, þegar fréttastofa hafði samband.