Fréttablaðið greindi frá málinu í dag. Í bréfi sem tónlistarskólastjórarnir hafa sent þingmönnum, borgarfulltrúum og sveitarstjórnarmönnum kemur fram að breytingarnar feli í sér að ríkið ætli að veita öllu fjármagni vegna framhaldsnáms í tónlistarskólum til eins skóla í Reykjavík. Það verði eini tónlistarskólinn á landinu sem muni bjóða upp á tónlistarnám á framhaldsstigi með sérstökum samningi við ríkið.Í bréfinu er gagnrýnt að ekkert samráð hafi verið haft við tónlistarkennara vegna þessa.
Framlag ríkisins til framhaldsnáms tónlistarskóla byggir á samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2011. Það hefur verið á bilinu 250-300 miljónir á ári. Það samkomulag er útrunnið og gangi tillögur ráðherra eftir stendur ekki til að endurnýja það. Í bréfinu kemur fram að gangi hugmyndir ráðherra eftir telja skólastjórarnir að aðgengi að tónlistarnáms minnki og jafnrétti til náms með tilliti til búsetu skerðist.
Menntamálaráðherra hefur skipað starfshóp sem fjalla á um framtíðarfyrirkomulag tónlistarkennslu á framhaldsstigi. Í hópnum eru fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og frá Menntamálaráðuneytingu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er fyrsti fundur starsfhópsins boðaður næstkomandi þriðjudag.
Árni Harðarsson skólastjóri tónlistarskólans í Kópavogi, er einn þeirra sem undirrita bréfið, og hann sagði í samtali við fréttastofu að sér þætti það mjög gagnrýnivert að í starfshópnum væri enginn fulltrúi frá tónlistarskólunum.
Hér til hliðar er hægt að lesa bréfið og meðfylgjandi greinargerð í heild sinni.