Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ekkert fé ætlað til rannsóknarnefndar

02.10.2013 - 17:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna hefur enn ekki verið skipuð, tæpu ári eftir að Alþingi samþykkti að hún yrði sett á fót. Ekki er gert ráð fyrir neinum fjárframlögum til nefndarinnar á næsta ári.

Alþingi samþykkti í nóvember í fyrra að setja á fót rannsóknarnefnd til að fara yfir einkavæðingu ríkisbankanna í byrjun aldarinnar. Tæpum ellefu mánuðum síðar hefur nefndin enn ekki verið skipuð og í fjárlagafrumvarpi næsta árs er ekki gert ráð fyrir neinum fjárframlögum til hennar.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir að seinkanir á skipun nefndarinnar og það að ekkert fé sé ætlað til rannsóknarnefnda í fjárlagafrumvarpi, sé ekki til marks um að nefndin verði ekki skipuð. „Nei, þetta er alls ekki vísbending um það.“ Hann ítrekar að Alþingi hafi samþykkt skipun þessarar nefndar. Áður en það verði gert telji forsætisnefnd þingsins þó að draga verði lærdóm af störfum fyrri rannsóknarnefnda Alþingis.

„Sú athugun okkar er hafin. Henni er hins vegar ekki lokið. Á þessari stundu getum við ekki af neinu viti áætlað það fjármagn sem nauðsynlegt verður til þessa nýja verkefnis,“ segir Einar. 

Fyrr á þessu ári skilaði rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð og um næstu mánaðamót skilar rannsóknarnefnd um sparisjóðina af sér. Kostnaður við nefndina varð meiri en áætlað var og verður farið fram á auknar fjárheimildir í fjáraukalögum. „Það eru verulegar upphæðir sem þarna þarf til.“

Forseti segir ólíklegt að hægt verði að ákvarða fjárþörf nýrrar rannsóknarnefndar áður en fjárlög næsta árs verða afgreidd.

[email protected]