Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ekkert fast í hendi hjá Huang Nubo

31.07.2012 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekkert er fast í hendi hvað kínverski fjárfestinn Huang Nubo fær að gera á Grímssstöðum. Stjórnvöld hafa sett málið í nefnd.

Stjórnvöld hafa hvorki gefið út leyfi út né tekið afstöðu til samninga við kínverska fjárfestinn Huang Nubo um Grímsstaði á Fjöllum. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að niðurstaða starfshóps ríkisstjórnarinnar ráði því hvort Huang geti leigt hluta jarðarinnar undir ferðaþjónustu.

Eftir ríkisstjórnarfund í morgun er ljóst að það skýrist ekki fyrr en í haust hver niðurstaða stjórnvalda verður í Grímstaðamálinu.

„Já það var samþykkt hér að minni tillögu að við setjum niður samráðshóp ráðherra og ráðuneyta til að fara rækilega yfir allar þessar forsendur í þessu máli og svara öllum spurningum sem þarf að svara áður en lengra er haldið. Þeim hefur fjölgað fremur en hitt svona að undanförnu,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Áformin ekki komin á beina braut

Hann segir að ekki hafi verið neitt óvenjulegt við að leyfa Huang Nubo að stofna félag til fjárfestinga hér á landi. „Það þýðir hinsvegar ekki að áformin að öðru leyti séu komin á beina braut eða nein leyfi eða nein afstaða hafi verið tekin til þess sem að þeim snýr. Það er það sem við setjumst yfir núna.“

Innanríkisráðherra hefur lagst gegn áformum Huangs Nubos og virtist ánægður með niðurstöðu ríkisstjórnarfundarins. „Ég lít svo að ekkert sem hefur verið gert sé óafturkræft,“ sagði Ögmundur Jónasson í samtali við fréttastofu í dag.

Langsótt að tengja við áhuga á Norðurslóðum

Steingrímur segir það af og frá að hann sé að bakka í málinu eða einangrast í eigin flokki. „Ég er bara nákvæmlega að leggja til það sem mér finnst skynsamlegt í þessu máli. Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir þessa vitleysisumræðu sem búin er að vera í gangi undanfarna daga þar sem verið er að reyna að draga upp hetjur og skúrka.“

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir það langsótt að tengja Grímsstaðaáformin við áhuga Kínverja almennt á Norðurslóðum og nýjum siglingaleiðum en vill þó fá skýr svör. „Er þetta það sem sagt er eingöngu áform um uppbyggingu í ferðaþjónustu. Eða er þetta tengt einhverju öðru og meira. Við skulum bara fá það hreint. Sem og fara vandlega yfir það hér hjá okkur sjálfum. Hvernig líst okkur á þetta og hvað viljum við,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.