Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekkert fangelsi fyrir konur

15.02.2015 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Engar konur verða boðaðar til að afplána fangelsisdóm fyrr en fangelsið á Hólmsheiði verður opnað í apríl á næsta ári. Þetta segir Páll Winkel fangelsismálastjóri. Kvennafangelsinu í Kópavogi verður lokað í maí vegna niðurskurðar.

Konur eru að jafnaði rúm fimm prósent af föngum landsins. Þær eru oftast vistaðar í opnum fangelsum, á Kvíabryggju eða Sogni, eða í Kvennafangelsinu í Kópavogi. Samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun hefur fjöldi kvenna sem hefja afplánun verið nokkuð misjafn milli ára, þær voru til að mynda fjórar árið 2000 en árin 2009 og 2012 hófu 23 konur afplánun í fangelsum. 

Í neyð verður hægt að vista kvenfanga í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og konur sitja í gæsluvarðhaldi í einangrunarklefa á Litla Hrauni. Kvennafangelsinu í Kópavogi verður lokað í maí vegna niðurskurðar og verða fangarnir þaðan vistaðir í opnum fangelsum eða áfangaheimilum.

„Við lágmörkum innkomur kvenna í fangelsi á þessu tímabili,“ segir Páll. Konur verði því ekki boðaðar í afplánun fyrr en Hólmsheiði opnar. „Þetta er einfaldlega hluti af niðurskurðarkröfu, við þurftum að skera niður um tvö prósent í viðbót á þessu ári, og við getum ekki gert annað en að loka fangelsum.“

Hefur ekki áhrif á lengd dóma

Páll segir biðina engin áhrif hafa á lengd þeirra dóma sem konur fá á tímabilinu. „Biðtíminn lengist eitthvað og það verða færri pláss tímabundið, en svo bætast 30 pláss við þegar Hólmsheiðin er opnuð.“ 

Fangelsið á Hólmsheiði á að opna í apríl 2016. Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg verður lokað. Hólmsheiði verður móttökufangelsi, gæsluvarðhaldsfangelsi fyrir karla og svo fangelsi fyrir konur í langtímaafplánun.

Slæmt að bíða lengi eftir boðun

Páll segir það geta haft slæm áhrif á þær konur sem eiga yfir höfði sér fangelsisdóma að þurfa að bíða eftir boðun, en lítið sé þó við því að gera. „Nei, nema bara í neyðartilvikum þá myndum við vista konur í Hegningarhúsinu.“

En er hægt að komast hjá blöndun kynjanna í Hegningarhúsinu? „Það er fangelsi frá 1874, úr sér gengið og það er ekki góð aðstaða, en eitthvað verðum við að gera,“ segir Páll.

Í einangrun á Litla-Hrauni

Kópavogsfangelsi og Hegningarhúsið hafa verið rekin á undanþágu frá heilbrigðiseftirlitinu í langan tíma og hefur Fangelsismálastofnun verið gagnrýnd fyrir að vista þar fanga til lengri tíma. Þær fáu konur sem fá gæsluvarðhaldsúrskurð á tímabilinu verða vistaðar í einangrun á Litla Hrauni, þar sem þær eru í klefa sínum 23 tíma á sólahring og svo einar í útivistargarði í klukkustund. 

[email protected]