Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekkert drama hjá Reykjavíkurdætrum og Svölu

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / Canon Mark 1D X

Ekkert drama hjá Reykjavíkurdætrum og Svölu

21.07.2018 - 10:47

Höfundar

Reykjavíkurdætur hafa mörg járn í eldinum þessa dagana. Rappsveitin spilar á tónlistarhátíðinni LungA á Seyðisfirði í kvöld en í dag senda þær einnig frá sér nýtt lag í samstarfi við Svölu Björgvins sem nefnist Ekkert drama.

Sveitin er nýkomin úr stóru tónleikaferðalagi um Evrópu og hefur á síðustu misserum komið fram á stórum hátíðum þar sem heimsfrægir tónlistarmenn hafa komið fram á sama tíma. Má þar nefna ástralska Íslandsvininn Nick Cave, David Byrne og síungu fjörkálfana í Chemical Brothers.

Meðlimir sveitarinnar, þær Þuríður Blær, Þura Stína og Steinunn Jóns segja í samtali við Síðdegisútvarpið að gríðarlega gaman sé að spila á hátíðum af þessari stærðargráðu. Uppsetning tónleikanna var hönnuð fyrir Evróputúrinn og hefur fram að þessu aldrei verið sett upp hér á landi. Þó bæta þær við að hluti af efninu hafi verið fluttur hér á landi á Sónar-hátíðinni og Airwaves, en þar sé hlutfall erlendra gesta svo hátt „að það er ekki alveg að marka.“

Orkan og leikhúsið alveg nóg

Reykjavíkurdætur flytja allt sitt efni á íslensku og á það einnig við á erlendum hátíðum. Þær segja það ekki koma að sök og að tónlistinni sé þrátt fyrir það vel tekið. „Ég held að það sé ótrúlega gaman fyrir fólk,“ segir Þuríður Blær. „Til að byrja með er sjóvið magnað. Þegar þú skilur ekki textann þá er samt nóg bara að horfa á orkuna og leikhúsið sem er í gangi. En ég held að það sé að færast í aukana og segið mér ef þið eruð sammála, að fólk sé að hlusta á rapp sem er útlenskt.“ Hún bætir við að fólk hlusti mikið a flæði, hrynjanda og orku þegar rapp er annars vegar. „Eins og Die Antwoord, skemmtilegustu textarnir þeirra eru textarnir sem maður skilur ekki.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - Canon Mark 1D X
Sveitin heldur virku sambandi við áhorfendur meðan á tónleikum stendur.

Kenna smá íslensku

Þær segjast tala mikið við áhorfendur meðan á tónleikunum stendur. „Erlendis erum við að kenna smá íslensku, lauma smá á undan svo að fólk geti sungið með.“ Steinunn bætir þó við að þær séu ekki að útskýra textana með beinum hætti, „en við erum að taka fólk mjög mikið inn og það er með okkur alveg í gegnum sjóvið og það kemur ekki að sök að þau skilji ekki textana, held ég.“ Hún segir jafnframt að í þeim tilfellum þar sem fólk hafi þurft að vita um hvað textarnir fjalla hafi það einfaldlega haft samband með tölvupósti og spurt.

Reykjavíkurdætur eru búnar að vera á tíðum tónleikaferðum erlendis síðustu tvö árin. Þær eru á samningi hjá erlendri bókunarskrifstofu sem heitir ATC live og segja samstarfið hafa gengið vel. Þá má þannig dæma af orðum þeirra að hróður sveitarinnar fari vaxandi en á auglýsingaplakötum tónlistarhátíðanna þar sem þær koma fram hafa þær orðið æ meira áberandi: „Núna vorum við á plakatinu ekki minnstu stafirnir - ekki heldur stærstu heldur næststærstu. Og við vorum ekki á stærsta sviðinu heldur á því næststærsta. Og alls staðar var troðið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svala býr í Los Angeles þar sem hún vinnur að tónlist sinni.

Ekkert drama með Svölu

Í dag verður nýtt lag Reykjavíkurdætra og Svölu Björgvinsdóttur gert aðgengilegt á Spotify. Lagið nefnist Ekkert drama en samstarfið kom til í kjölfar Tónaflóðs-tónleika Rásar 2 á Menningarnótt, þar sem Dæturnar hittu Svölu. „Við hittumst baksviðs og töldum í okkur kjark að segja loksins við Svölu: Hæ, við elskum þig, ó mæ god, okkur finnst þú æði, þú ert svo flott,“ segir Þura Stína. „Og hún eitthvað: Ég elska ykkur, ó mæ god, eigum við ekki að gera lag saman?“

Það varð úr að samstarfið fór í gang en Svala bjó í Los Angeles á þeim tíma. Lagið tók nokkurn tíma í vinnslu en þær lögðu upp úr því að finna rétta „væbið“, þar sem þær vildu ná séreinkennum Svölu og Reykjavíkurdætra fram í sama laginu.

„Þetta er svona ný týpa af rapplagi. Ég hef aldrei samið svona áður, þetta er svona tekknó eitthvað.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Mugison og Svala á Innipúkanum

Tónlist

Reykjavíkurdætur spyrja hvað málið sé

Tónlist

Reykjavíkurdætur „flippuðu út“ á G-festival

Leiklist

Reiðar og mjúkar Reykjavíkurdætur