Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Ekkert átak til að hjálpa Nubo

06.12.2011 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslensk stjórnvöld eiga ekki að gera sérstakt átak til að greiða fyrir fjárfestingaráformum Huangs Nubo. Um hann eiga að gilda sömu reglur og alla aðra. Þetta er mat fulltrúa Vinstri grænna í atvinnuveganefnd Alþingis.

Halldór Jóhannsson, talsmaður Huangs Nubo kom á fund atvinnuveganefndar í morgun og kynnti þar kínverska fjárfestinn og umsvif hans ýtarlega.

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna á sæti í nefndinni og sat kynninguna. „Ef ég man rétt þá er hann að reka 46 þjóðgarða, 23 menningarþorp og 11 fjöll sem meðal annars komu fram í gögnum sem okkur voru þarna sýnd. Mér þykir það ákaflega merkilegt bara til að fræðast um manninn og persónuna. En mér fannst þetta hins vegar hafa lítið gildi fyrir okkur og atvinnuhorfur á Íslandi.“

Kristján Möller, formaður atvinnuveganefndar, hvatti til þess í hádegisfréttum að fundin yrði farsæl lausn í máli Huangs Nubo, það væri hægt. Málið horfir öðruvísi við Birni. „Lausn á hvaða máli? Ég gat ekki séð að Hunang Nubo ætti í sérstökum vandræðum miðað við þau gögn sem þarna komu fram en formaður atvinnuveganefndar er bjartsýnn maður að upplagi og ákafur og fylginn sér. Þar fyrir utan þá auðvitað tala íslensk stjórnvöld við þá sem þau vilja ræða við um ýmiss áform, bæði erlenda og innlenda aðila og félagi Nubi fellur bara undir það eins og allir aðrir.

Undir þetta tekur Lilja Rafney Magnúsdóttir varaformaður nefndarinnar og segir að ekkert hafi komið fram á fundinum sem hreyft hafi við henni. Eðlilegt sé að kanna málið en stjórnvöld eigi ekki að gera sérstakt átak í því. Björn Valur segir að óski Huang sjálfur eftir viðræðum sé eðlilegt að skoða það. „Svona í augnablikshrifningu í morgun þá sá ég það fyrir mér að atvinnuveganefnd færi nú þarna austur eftir og kynnti sér reksturinn og gengi á þessi fjöll og í menningarþorpin til að sjá hvernig þetta færi allt saman fram hjá honum en það leið svo frá þegar ég fór í fjárlagavinnuna á eftir.“