Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekkert ákveðið um hver verði borgarstjóri

Mynd: RÚV / RÚV
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, segir ekkert ákveðið um það hver verði borgarstjóri gangi meirihlutaviðræður Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna upp. Viðræðurnar hefjast í dag og er stefnt að því að þeim ljúki ekki síðar en 19.júní þegar borgarstjórn kemur saman í fyrsta sinn eftir kosningar.

„Þetta er allt saman opið. Það getur hver sem er orðið borgarstjóri. Það er bara þannig,“ sagði Þórdís í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Það er slúður“

Vangaveltur hafa verið settar fram í fjölmiðlum um að hugsanlega verði farin sú leið að ráða borgarstjóra og hafa Ragna Árnadóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Halla Tómasdóttir verið nefnd. 

„Við byrjum í dag á málefnagrunni og verkaskiptingin hefur ekkert verið ákveðin. Það er ýmislegt slúður í gangi heyri ég. Þessi nöfn og það að það verði ráðinn borgarstjóri. Það er slúður. Við höfum ekki ákveðið neitt. Það eru allir að leika sér að rýna í spilin og það er nú bara skemmtilegt líka,“ segir Þórdís.

Verður nýr meirihluti

Þórdís segir að Viðreisn sé ekki að ganga inn í gamla meirihlutann. „Við erum ný og við köllum á breytingar og við köllum á nýjan meirihluta. Píratar unnu líka góðan sigur og eru með nýtt fólk í brúnni og kalla líka á meiri breytingar heyri ég í þeirra kosningabaráttu. Þannig að við lítum nú ekki á að við séum að ganga inn í neitt gamalt. Við erum bara að fara að stofna nýjan meirihluta ef okkur gengur og þá verður það nýr meirihluti.“

Þórdís sagðist í Morgunútvarpinu ekki ætla að úttala sig um samningsmarkmið í fjölmiðlum áður en viðræður hefjast en að það sé ekki launungarmál að Viðreisn leggi áherslu á menntamál, leikskólamál og atvinnulíf auk skipulagsmála og húsnæðismála. „Við vildum líka ræða það sérstaklega að koma inn með úthverfin og þétta þau til nálægðar við borgina og lögðum sérstaka áherslu á það og er umhugað um úthverfin okkar. Við héldum blaðamannafund uppi í Breiðholti í gömlum þjónustukjarna þar og lögðum áherslu á að þessir kjarnar sem eru úti um alla borg fengju aftur líf og það er byrjað að gera það á nokkrum stöðum en það vantar fókus á það.“  

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV