Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ekkert ákveðið um fólksflutninga

23.05.2011 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Á fundi í Samhæfingarstöð Almannavarna í dag kom fram að þótt dregið hafi úr gosinu þá spúi gígurinn nú 2.000 tonnum af gosefnum út í andrúmsloftið á sekúndu.

Á fundi í Samhæfingarstöð Almannavarna nú síðdegis kom meðal annars fram að þótt dregið hafi úr gosinu þá spúi gígurinn nú um tvö þúsund tonnum af gosefnum út í andrúmsloftið á sekúndu. Matthew Roberts, jöklafræðingur hjá Veðurstofu Íslands sagði gosið í fullum gangi og á ferðinni sé stærsta gos í Grímsvötnum síðustu eitt hundrað árin. Á hverri sekúndu komu tvö þúsund tonn af sekúndu upp úr gígnum. Roberts sagði jafnframt að dregið hefði úr skjálftavirkni á svæðinu.


Þá sagði Sigrún Karlsdóttir náttúruvástjóri Veðurstofu Íslands að aska úr gosinu gæti borist að suðurströnd Skandinavíu næsta sólarhringinn. Hjálmar Björgvinsson stýrir aðgerðum í samhæfingarstöðinni. Hann sagði í samtali við Ægi Þór Eysteinsson fréttamann að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um flutning á fólki frá hamfarasvæðinu.

„Ég var í sambandi við kollega mína þarna fyrir austan og eins og kom réttilega fram hjá yfirmanni heimilisins þá er það varla gerlegt. Það er svart öskuský á þessu svæði. Það sem hefur verið gert er að starfsfólkið var aðstoðað í og úr vinnu og einnig hef ég fréttir af því að íbúar sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma hafi verið færðir á dvalarheimilið til aðhlynningar eða nær lækni.


Hjálmar sagði ennfremur að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um að opna vegi á svæðinu sem lokað var í varúðarskyni. „Aðstæður eru bara þannig að það er bara ekki forsvaranlegt, það svartamyrkur þarna fyrir austan og umferð um þjóðveginn fyrir almenna umferð er ekki leyfð nema fólk eigi brýnt erindi þarna um. Vegurinn verður lokaður, við ákveðum það í fyrramálið hver næstu skref verða.“