Eitur í barnafötum

Mynd með færslu
 Mynd:

Eitur í barnafötum

16.01.2014 - 14:42
Í umhverfi okkar má finna margskonar skaðleg efni sem mannskepnan notar í framleiðslu á vörum,yfirleitt til að létt okkur lífið.Stefán Gíslason fjallar um skaðleg efni í barnafötum í pistli sínum sem auk þess að hlusta á, má lesa hér að neðan.


Eitur í barnafötum

 Þegar foreldrar kaupa föt á börnin sín vilja þeir eflaust að sem minnst af eiturefnum fylgi með í kaupunum. Oftar en ekki leynast þó einhver hættuleg efni í nýjum barnafötum ef marka má könnun sem umhverfisverndarsamtökin Greenpeace gerðu nýverið og sagt var frá í skýrslu samtakanna sem birt var í fyrradag undir yfirskriftinni „Lítil saga um skrímslin í fataskápnum þínum“ eða ”A Little Story About the Monsters in Your Closet”.

 Könnun Greenpeace fór þannig fram að samtökin keyptu slæðing af barnafötum í venjulegum fataverslunum í 25 mismunandi löndum og létu greina tiltekin efnasambönd í þeim. Samtals voru þetta 82 flíkur frá ýmsum framleiðendum og reyndust 76 þeirra innihalda leifar af skaðlegum efnum, þ.e.a.s. efnum sem geta truflað hormónastarfsemi líkamans, leitt til skertrar frjósemi og skaðað ónæmiskerfið.

 Nónýlfenólethoxýlat (eða NPE) var eitt þeirra efna sem var mest áberandi í könnun Greenpeace, en það er meðal annars notað til að bleikja föt. NPE fannst í 50 flíkum af þessum 82 sem teknar voru til skoðunar. En þarna komu einnig við sögu efni á borð við þalöt, lífræn tinsambönd, perflúorkolefni (PFC) og antimon. Einna verst var ástandið í tilteknum sundfötum sem innihéldu mikið af perflúoroktansýra (PFOA) og í tilteknum stuttermabol sem innihélt 11% þalöt. Perflúoroktansýran er vatnsfráhrindandi og þekkist best undir nöfnunum teflon og goretex, en þalöt hafa lengi verið notuð sem mýkingarefni í tilteknar vörur úr plasti, aðallega úr PVC-plasti. Eitthvað er um að þalöt finnist í upphleyptu letri og upphleyptum myndum á barnafötum. Nokkur ár eru síðan bannað var að nota þalöt í plastleikföng sem ætluð er til þess að setja í munn, en ekkert slíkt bann er í gildi fyrir barnaföt, jafnvel þótt einhver horn af þeim hafi gjarnan viðkomu í munninum, auk þess sem fötin eru yfirleitt miklu lengur en leikföngin í snertingu við húð barnsins. 

 Í framhaldi af niðurstöðum Greenpeace hefur Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) látið þau boð út ganga, að ástæðulaust sé fyrir foreldra að fara á taugum út af þessum upplýsingum. Vissulega finnist hættuleg efni í barnafötum, en því fylgi engin sérstök áhætta, þar sem styrkur efnanna sé yfirleitt undir hættumörkum. Ef í ljós komi að einhverjar vörur innihaldi meira af skaðlegum efnum en leyfilegt er, þá geti Miljøstyrelsen látið taka viðkomandi varning úr sölu og gripið til viðeigandi ráðstafana í framhaldinu með stuðningi Evrópusambandsins. Til að tryggja öryggi barnanna sé þó rétt að þvo öll ný föt fyrir notkun. Langstærstur hluti efnanna skolist nefnilega út í fyrsta þvotti.

 Þegar betur er að gáð sést að maður eyðir ekki vandamálinu með því að þvo fötin. Maður færir það bara til. Efni sem eru skaðleg heilsu manna eru að öllum líkindum líka skaðleg fyrir umhverfið, þannig að þó að barnið sé kannski laust allra mála í bili, þá situr lífríkið í viðtaka fráveitukerfisins í súpunni, hvort sem viðtakinn er sjór, á eða stöðuvatn. Eðlilega er manni aðeins minna annt um lífríkið í sjónum en um eigin börn, en á endanum kemur þetta samt í bakið á manni, eða jafnvel í bakið á börnunum þegar þau vaxa úr grasi. Sjórinn, árnar og stöðuvötnin eru jú undirstaðan í fæðuöfluninni, þannig að jafnvel þó að maður hugsi bara um sjálfan sig, er ástæða til að velta þessu aðeins fyrir sér.

 Vissulega geta ýmsar vörur innihaldið hættuleg efni án þess að þau skaði heilsu þess sem notar vöruna. Það að eitthvert efni sé yfir mælanlegum mörkum þýðir nefnilega ekki að það sé yfir hættumörkum, alveg eins og Miljøstyrelsen bendir á. En þetta getur breyst ef fleiri efni eru til staðar samtímis. Það getur sem sagt verið í þokkalega góðu lagi að fá í sig 1 míkrógramm af einhverju einu efni, en í stakasta ólagi ef maður fær líka í sig 1 míkrógramm af einhverju öðru efni með svipaða virkni. Þá hjálpar það ekki neitt þótt styrkur hvors efnis um sig sé undir hættumörkum. Í versta falli getur annað efnið meira að segja stóraukið virkni hins. Slík samverkandi áhrif er einmitt það sem átt er við þegar talað er um kokteiláhrif efna. Þar er 1 plús 1 ekki alltaf 2, heldur stundum jafnvel 3 eða 5. Þess vegna er allur varinn góður hvað sem formlegum hættumörkum líður.

 Boðskapur Greenpeace i þessu máli er einfaldlega sá, að framleiðendur eigi að hætta að nota hættuleg efni við framleiðslu á fatnaði, enda sé nóg til af öðrum minna skaðlegum efnum sem hægt er að nota í staðinn. Neytendasamtök Danmerkur hafa tekið í sama streng. Þar á bæ hafa menn áhyggjur af því að enn sé verið að nota efni á borð við NPE í barnaföt. Börn séu jú viðkvæmari fyrir alls konar efnum en fullorðnir, og auk þess sé líklegt að börn fái þessi efni frekar í sig vegna þess að þau eiga það til að bragða á fötunum sínum, til dæmis með því að sjúga ermar og annað sem hentar vel til þeirra nota. Þess vegna beri fataframleiðendur mikla ábyrgð.

 Þeir sem vilja vera lausir við efni af þessu tagi ættu að kaupa fatnað með umhverfismerkjum á borð við Svaninn og Umhverfismerki ESB, eða með GOTS-merkinu. Hér gildir líka það sama og annars staðar að neytendur geta haft mikil áhrif á efnasamsetningu vörunnar. Það eina sem þarf að gera er að spyrja í tíma og ótíma hvort að varan innihaldi tiltekin óæskileg efni. Ef nógu margir spyrja fara framleiðendur að hugsa sig um. Eflaust halda margir að þeir séu einir í þessari baráttu og að þess vegna þýði ekki neitt að láta til sín heyra, en tilfellið er að flestir aðrir eru í nákvæmlega sömu stöðu. Meðal annars vegna þrýstings frá neytendum hafa 18 stórir fataframleiðendur gengið til liðs svokallað „Detox-átak“ Greenpeace, en þátttakendur í þessu átaki gangast undir skuldbindingu um að úthýsa hættulegum efnum úr öllum stigum fataframleiðslunnar fyrir árið 2020.

 Meginniðurstaðan er þessi: Barnaföt innihalda oft hættuleg efni. Hægt er að verja börnin að talsverðu leyti fyrir skaðlegum áhrifum efnanna með því að þvo fötin fyrir notkun. En þá flyst vandamálið bara út í náttúruna og kemur kannski í bakið á okkur síðar. Betri leið er að gerast gagnrýninn neytandi, spyrja seljendur í tíma og ótíma um allt það sem manni finnst skipta máli í sambandi við vöruna – og að kaupa svo umhverfismerkt barnaföt þegar þess er kostur.