Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Eitt sveitarfélag greiðir engin laun

26.04.2014 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Mánaðarlegar launagreiðslur sveitarstjórnarmanna eru frá núlli upp í hátt í hálf milljón króna á mánuði. Eitt sveitarfélag greiðir engar þóknanir þrátt fyrir að lögum samkvæmt eigi sveitarstjórnir að ákvarða kjörnum fulltrúum laun.

Samband íslenskra sveitarfélaga kannar kaup og kjör sveitarstjórnarmanna á tveggja ára fresti. Í nýjustu könnuninni kemur fram að eitt sveitarfélag greiðir sveitarstjórnarmönnum enga þóknun. Fram kemur í skýrslu um könnunina að þar með séu lög í raun brotin. Það er vegna þess að lögum samkvæmt verður hver og ein sveitarstjórn að ákveða hæfilega þóknun til sveitarstjórnarmanna fyrir störf þeirra. 

Sveitarfélagið sem um ræðir er Svalbarðshreppur. Þar er Elfa Benediktsdóttir oddviti. Hún segir að fjárhagsstaða hreppsins hafi verið bágborin þegar núverandi sveitarstjórn tók við.

„Það var ákveðið hjá okkur, þegar við tókum við fyrir fjórum árum og þegar við fórum að taka til í rekstrinum, að taka ekki laun fyrir sveitarstjórnarfundi,“ segir Elfa.

Sveitarstjórnarmenn í minnstu sveitarfélögunum, með innan við 200 íbúa, fá allir greiddar innan við 50 þúsund krónur á mánuði fyrir störf sín og flestir innan við 25 þúsund. Laun sveitarstjórnarmanna hækka almennt eftir því sem íbúunum fjölgar.

Eitt sveitarfélag með innan við 2.000 íbúa greiðir sveitarstjórnarmönnum meira en hundrað þúsund krónur í mánaðarlaun en fjórtán af 21 sveitarfélagi með meira en 2.000 íbúa greiðir hundrað þúsund krónur eða meira á mánuði.

Reykjavík er eina sveitarfélagið sem greiðir sveitarstjórnarmönnum meira en 200 þúsund krónur að jafnaði, raunar upp undir hálfa milljón. Rétt er að hafa í huga að nefndastörf, formennska í bæjarstjórn og bæjarráði og annað í þeim dúr getur leitt til þess að fólk fái greitt aukalega.