Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eitt af tólf sveitarfélögum undirbýr sameiningu

30.01.2020 - 20:03
Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson / RÚV
Aðeins eitt af tólf sveitarfélögum sem uppfylla ekki skilyrði um lágmarksíbúafjölda innan tveggja ára hefur hafið undirbúning sameiningar en Alþingi samþykkti í gær að lágmarksíbúafjöldi verði 250 innan tveggja ára Tilvist minnstu sveitarfélaganna á eftir að ganga út á sameiningar, að sögn Braga Þórs Thoroddssen, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps. 

 

Samkvæmt tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar, ráðherra sveitarstjórnarmála, verða sveitarfélög að hafa að lágmarki 250 íbúa árið 2022 og þúsund íbúa árið 2026.

Alls eru tólf sveitarfélög á landinu undir neðra þrepinu. Minnst þeirra er Árneshreppur með 43 íbúa, Tjörneshreppur, Helgafellssveit, Skorradalshreppur, Fljótsdalshreppur, Skagabyggð og Svalbarðshreppur eru með 50 til 100 íbúa og Kaldrananeshreppur með 109, Eyja- og Miklaholtshreppur með 124, Akrahreppur og Súðavíkurhreppur með rúmlega 200 og rétt neðan við mörkin er Kjósarhreppur með 245 íbúa.

Skagabyggð er eina sveitarfélagið af hinum tólf sem hefur hafið viðræður um sameiningu. Fjögur sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu stefna að því að mynda 1800 manna sveitarfélag.

Á nokkrum stöðum er þegar mikið samstarf við stærra nágrannasveitarfélag, svo sem Súðavíkurhreppi við Ísafjarðarbæ og Skorradalshreppi við Borgarbyggð. Sveitarstjórar þar segja samstarfssveitarfélögin augljósasta kostinn við sameiningu þótt aðrir kostir verði einnig skoðaðir.

Bragi Þór Thoroddssen í Súðavík segir að öll tilvist minnstu sveitarfélaganna eigi eftir að ganga út á það eitt á næstu tveimur árum að finna sér partner, eins og hann orðar það. „Fljótsdalshreppur er eini af litlu hreppunum á Austurlandi sem ekki hefur sameinast öðrum,“ segir hann. „Eins og annar staðar í dreifbýlinu þá hefur íbúum fækkað, við höfum ekki séð það fyrir okkur að það yrði viðsnúningur á þeirri þróun með því að sameinast.“

Sveitarstjórar sveitarfélaganna tveggja á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshrepps og Helgafellssveitar, segjast ekkert vera farnir að huga að sameiningu af alvöru. Viðraðar hafi verið hugmyndir um eitt sveitarfélag á Snæfellsnesi, þótt það hugnist ekki öllum þar. 

Sveitarstjóri Árneshrepps segir að betri samgöngur þurfi að koma til ef sameina eigi sveitarfélög á jafn víðfeðmu svæði og á norðanverðum Ströndum. En í Kaldrananeshreppi þykir ekki tímabært að ræða hugmyndir um sameiningu.

Tjörneshreppur sagði sig úr samtökum sveitarfélaga til að mótmæla þessum áformum um sameiningu. Og oddvitinn segir enga vinnu hafna til undirbúnings sameiningu við önnur sveitarfélög.

„Til þess að halda sveitarstjórnarstiginu svona svipuðu eins og það er að þá munum við að sjálfsögðu horfa til landfræðilegra þátta og þá er náttúrlega eðlilegast að við sameinumst nágrönnum okkar hérna í Norðurþingi en hins vegar er þá ekkert sem segir að það verði raunin,“ segir Aðalsteinn J. Halldórsson, sveitarstjóri í Tjörneshreppi. „Og miðað við tillögur og það sem var verið að samþykkja í þinginu þá sé ég í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að við getum sameinast við hvaða sveitarfélag sem er á landinu.“ 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV