Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eitt af mikilvægari bókmenntaverkum 2017

Mynd: wikicommons / wikicommons

Eitt af mikilvægari bókmenntaverkum 2017

08.03.2018 - 16:37

Höfundar

Grænmetisætan, skáldsaga eftir suður-kóreska rithöfundinn Han Kang, er komin út í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal. Gauti Kristmannsson, bókmenntarýnir Víðsjár, fjallaði um bókina.

Gauti Kristmannson skrifar: 

Skáldsaga frá Suður-Kóreu, það er eitthvað nýtt. Efni sögunnar snýst hins vegar um sammannlega hluti; þrýsting samfélagsins á einstakling til að beygja sig að óskrifuðum reglum þess, söguhetja þessarar skáldsögu ákveður einn góðan veðurdag að gerast grænmetisæta, í raun að verða vegan eins og það kallast núna. Þetta veldur eiginmanni hennar og fjölskyldu mikilli armæðu og af stað fer mikil örlagasaga með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sagan er sögð frá þremur sjónarhornum; fyrst fáum við fyrstu persónu frásögn eiginmannsins, sem hélt í upphafi að hann hefði eignast fullkomlega óáhugaverða konu og hún yrði þess vegna ekki með neitt vesen; hann ætlaði greinilega að líða áfram makindalega í gegnum lífið og njóta þjónustu þessarar konu við það. Annar hluti sögunnar er síðan í þriðju persónu út frá sjónarhorni mágs hennar, vídeólistamanns sem heillast af henni, einmitt þegar fjölskyldan ætlar að pína frávikann til að éta kjöt og hún bregst við með því að skera sig á púls, og undirstrika þannig hreina tilvistarlega afstöðu sína til kjötátsins sem hún hefur hafnað. Hann vill gera hana að listaverki og maður spyr sig hvort hann sé ekki að nota hana nákvæmlega eins og samfélagið í því tilfelli, en á hinn bóginn verður listgjörningur hans með líkama hennar og hans sjálfs raunar líka, hluti af þeim hamskiptum sem fígúran gengur í gegnum. Þriðji hlutinn er svo sagður út frá sjónarhorni systur hennar, eiginkonu listamannsins, þegar umskiptin eru í raun um garð gengin og hún þarf að spyrja sig tilvistarlegra spurninga um tilgang lífsins og kannski hinnar biblísku spurningar um hvort maður eigi að gæta systur sinnar.

Vinsæl lesning

Grænmetisætan hefur farið sigurför um heiminn og er vissulega bæði fangandi og spennandi, unnin af mikilli kunnáttu og spilar með mikil örlög á fáum blaðsíðum. Grundvallarspurningin er að vissu leyti sú sama og Kafka spyr í Umskiptunum, og nefna þýskir gagnrýnendur hann einmitt í ritdómum sínum. Hvernig á að fara með þá sem ekki semja sig að grunnreglum samfélagsins án þess þó að brjóta nokkrar reglur? Þá sem taka sig sjálfa úr umferð, eða í tilfelli Gregors Samsa, eru teknir úr umferð án þess að fá nokkuð við það ráðið? Svarið fæst ekki í sögunni, en lesandinn þarf að taka við vinnunni að henni lokinni.

Bókin var tilnefnd til hinna virtu Man Booker verðlauna, en þau eru merkileg fyrir það, meðal annars, að þýddar bækur standa þar jafnfætis frumsömdum til verðlauna. Hún fékk líka verðlaunin og þar með gríðarlega athygli og vafalaust frekari dreifingu og þýðingar á önnur minni mál, eins og til að mynda íslensku. En það hafa komið upp raddir um þýðinguna, ekki síst eftir að fréttist að enski þýðandinn, Deborah Smith, þá aðeins 28 ára að aldri, hefði aðeins lært kóresku í sex ár. Það er reyndar töluverður tími að mínu mati, en kannski ekki mikill þegar um svo fjarskyld mál er að ræða eins og móðurmál þýðandans og kóreskuna. Það var ekki síst eftir verðlaunaveitinguna og heimsfrægðina að fólk í Suður-Kóreu fór að bera saman og þá brá sumum í brún, það væru einhverjar villur í þessu og stíllinn væri eitthvað öðruvísi. Þetta skiptir máli fyrir íslensku útgáfuna sem er ekki þýdd beint úr kóresku, heldur úr enskunni hennar Deboruh Smith.

Nú er það svo að þýðingar eru oft tortryggðar, stundum fyrir það eitt að vera ekki frumtextinn, en margur leikmaðurinn fer og sækir baunatalningapokann sinn og fer að leita að villum ef hann kann hrafl í erlenda málinu. Nú verður þýðendum vissulega á þegar svo ber undir þótt margir gleymi að til séu villur í frumtextum rétt eins og þýðingum; höfundar klúðra nöfnum á minni háttar persónum, gleyma hvað hefur gerst einhvers staðar og svo framvegis. Þetta er ekki algengt og áberandi, ekkert frekar en þýðingavillurnar, en þær þykja samt meiri synd, vegna þess að þýðing stendur undir nokkurs konar sannleikskröfu, þýðingin á að segja sannleikann, og allan sannleikann, um frumtextann, annars er hún ekki siðferðilega verjandi. Þessi einstrengingslega afstaða til þýðinga er tiltölulega nýtilkomin, en þeir sem þekkja þýðingasöguna vita að meira að segja á okkar tímum þegar hún er hvað einstrengingslegust, þá er svo margt að gerast í tilflutningi texta á milli menningarheima, að það myndi æra óstöðugan að leita að öllum villunum sem eiga að vera þarna.

Þýðing Deboruh Smith fékk reyndar dálitla athugun manns með þekkingu í Los Angeles Times, Charse Yun, heitir hann og fer yfir kost og löst á þýðingunni, það eru vissulega nokkrar smávillur sem engu máli skipta, en það sem kannski meira máli skiptir, er að Smith virðist hafa gert textann ljóðrænni í framsetningu en hann er á kóresku. Nú er það svo að þýðingum er ritstýrt hjá betri forlögum í Bretlandi og ég verð að segja að mig grunar að hér hafi þýðandinn ekki verið einn að verki með slíka útfærslu á textanum. Ég hef rannsakað svipað dæmi í tilfelli Milans Kundera, sem lenti í því þegar fyrsta bók hans, Brandarinn, var þýdd á ensku, að hún hafði verið stytt, kaflaröð breytt og ýmislegt annað sem honum mislíkaði mjög. Hann skrifaði reiðilestur í Times Literary Supplement og þá kom í ljós að ritstjórinn hafði ákveðnar skoðanir á þýðingunni sem hann fékk í hendur, þýðingu sem samsvaraði frumtextanum ágætlega, og breytti því sem hann taldi rétt vera. Hann baðst afsökunar og bókin var gefin út í þýðingu þýðandans eftir það.

Yfirgangur enskunnar

Ég þekki það einnig af rannsóknum á þýðingum í bresk-bandarísku samhengi að þýðingar á ensku eru oft þessu marki brenndar, það er bætt í stílinn á stundum og ef það er eitthvað óljóst menningarlega, þá er skýringu oft lætt inn í setninguna án þess að hafa einhverja frekari viðhöfn; það má alls ekki sjást neðanmálsgrein í bókmenntatexta að þeirra mati sem ráða bresk-bandarískum bókmenntastofnunum. Þannig eru þýðingar á ensku oft yfirgangssamari en á önnur mál, til dæmis þýsku, þar sem meiri nákvæmni ræður ríkjum, en kannski verða bækurnar eitthvað bragðdaufari fyrir vikið, að sumra dómi kannski.

Þýðing Ingunnar Snædal er sem sagt eftir þessari alræmdu ensku þýðingu og ber kannski að meta í því ljósi. Ég fæ þó ekki séð að hún hafi smitast af mikilli lýsingarorðabólgu eða leikfimiæfingum í stíl. Prósinn er einmitt stílhreinn, einfaldur og áreynslulaus, nákvæmlega eins og gagnrýnendur hafa lýst kóreska textanum. Það er greinilega unnið með textann af kunnáttu til að hann standi undir íslenskum málvenjum, en það er oftast gert og í texta þar sem stíllinn er ekki tilraun um stíl, heldur aðeins tæki til miðlunar, þá er það sjálfsögð aðferð. Ég fæ því ekki annað séð en að íslenskir lesendur geti notið þessarar annars athyglisverðu bókar í þýðingu og það sem meira er þeir fá að lesa hér eitt af mikilvægari bókmenntaverkum síðasta árs.