Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eitt af hverjum sex börnum á átakasvæðum

29.01.2019 - 17:00
Mynd:  / 
Þó að 30 ár séu liðin síðan Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur býr eitt af hverjum fjórum börnum á svæðum þar sem neyð ríkir og eitt af hverjum sex á átakasvæðum. Stríðsátök hafa ekki verið meiri en nú í 30 ár.

Ákall til alþjóðasamfélagsins

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sendi í dag út ákall um að ríki heims leggi sitt af mörkum til að veita börnum sem búa við neyð og hörmungar nauðsynlega aðstoð og hjálp. Neyðaráætlun Barnahjálparinnar hljóðar upp á 3,9 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði um 470 milljarða íslenskra króna. Stefnt er á að ná til rúmlega 40 milljóna barna í 59 löndum. Neyðarkall UNICEF hljóðaði upp á 3,8 milljarða dala í fyrra en 1,8 milljarðar söfnuðust. Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Barnahjálparinnar á Íslandi, segir að á síðasta ári hafi þrjár milljónir barna fengið sálræna aðstoð, 35 milljónir manns hafi fengið aðgang að hreinu vatni, sex milljónir fengu menntun og tæpar þrjár milljónir fengu aðstoð vegna vannæringar.

„Við vinnum á öllum þessum erfiðustu svæðum heimsins og gerum okkar allra besta. En við búum við það umhverfi að annars vegar eru ríki heimsins ekki að ná að fjármagna ákall okkar eins og við vildum og hins vegar að stríðandi fylkingar bera minni og minni virðingu fyrir alþjóðasáttmálum eins og Genfarsáttmálanum og barnasáttmálanum og brjóta markvisst á börnum og hefta mjög víða aðgengi hjálparstofnana að fólki í neyð,“ segir Bergsteinn Jónsson.

Mynd með færslu
 Mynd:
Bergsteinn Jónsson.

30 ár frá samþykkt barnasáttmálans

Samt sem áður náist árangur en betur má ef duga skal. Í ár eru 30 ár frá því að barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Eitt af hverjum fjórum börnum býr við skort eða neyð og síðustu 30 ár hefur ekki verið eins ófriðarsamt í heiminum og nú. Bergsteinn segir að það fari eftir löndum og landsvæðum hvernig sáttmálinn er virtur. Víða hafi náðst árangur í að bæta réttindi barna.

 En mjög víða er þverbrotið gegn réttindum barna á hverjum degi.

Hann segir að þó að dregið hafi úr stórum stríðsrekstri hafi átökum ekki fækkað. Víða séu átök sem umheimurinn taki ekki eftir. Hann nefnir til dæmis átök milli ættbálka í Eþíópíu sem hafa hrakið tvær og hálfa milljón manna á flótta.

„Það er töluvert ófremdarástand í heiminum, sérstaklega þegar kemur að öryggismálum. Þegar við lítum á þetta stóra ákall, neyðarákall út um allan heim þá eru 88% af þeirri fjárþörf tengd átakasvæðum,“ segir Bergsteinn. 

Mynd með færslu
 Mynd:
UNICEF veitir börnum sem leyst hafa verið undan herþjónustu sálrænan stuðning.

Búa við viðvarandi álag

Staða barna er víða slæm. Barnahjálpin fæst ekki einungis við afleiðingar ofbeldis.

„Þetta snýst líka einfaldlega um að börn eru rænd þjónustu sem þau eiga rétt á eins og heilsugæslu, hreinu vatni og ekki síst menntun. Fyrir utan það þá býr allur þessi fjöldi barna á átakasvæðum við viðvarandi ofurálag sem getur valdið sjúklegri streitu sem getur orðið til þess að heilu kynslóðirnar fara út af sporinu. Það veldur því að mun erfiðara er að byggja upp virkt samfélag,“ segir Bergsteinn. 
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV