Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Eitraður Mourinho fær hvergi vinnu

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Eitraður Mourinho fær hvergi vinnu

18.01.2016 - 15:55
José Mourinho er einn sigursælasti knattspyrnustjóri sögunnar og hefur náð frábærum árangri með Porto, Chelsea, Inter Milan og Real Madrid. Viðskilnaður hans og sérkennileg framkoma hefur hins vegar orðið til þess að nú vill enginn ráða þennan magnaða þjálfara í vinnu.

Það hefur aldrei verið neinn skortur á sjálfsáliti hjá José Mourinho. Stærilæti hans er stór hluti af sjarma þessa manns en mannalætin eiga líka stóran þátt í falli hans. Hann var hafinn til skýjanna á velgengnisárunum en þegar syrta tók í álinn var enginn skortur á fólki sem grét krókódílatárum yfir niðurlægingu hans. Sjálfur var hann ekki í vafa um stöðu sína hjá Guði árið 2011.

„Guði hlýtur að finnast ég frábær náungi. Það getur ekki annað verið, annars hefði hann ekki gefið mér svona mikið... Hann hlýtur að hafa gríðarlega mikið álit á mér."

Daniel Taylor skrifar útekt um atvinnuhorfur Josés Mourinho í Guardian. Hann er helsti sérfræðingur Guardian og Observer í fótbolta. Hann hefur afar góð tengsl í Manchester og hefur skrifað bækur um Manchester United. Hann fullyrðir að þar sé ekki áhugi á starfskröftum Mourinhos, þrátt fyrir afleitt gengi liðsins undir stjórn Louis van Gaal. Sé það rétt er hætt við að Mourinho hafi brennt svo margar brýr að baki sér að litlar líkur séu á að þessi sigursæli þjálfari fái stöðu hjá einherju af stóru liðunum í heimsfótboltanum.

Að kaupa titilinn í Tesco

Mourinho skaust upp á stjörnuhiminninn hjá Porto og þá vantar þjálfara eftir að Julen Lopetegui var rekinn og Rui Barros tók tímabundið við liðinu. Taylor segir afar ólíklegt að Mourinho fari aftur til Portúgals í deild þar sem Sir Alex Ferguson sagði að titilinn mætti kaupa í Tesco. Á leik Arouca og Estoril mættu 705 áhorfendur og meðaláhorfendafjöldi hjá liðum í deildinni er innan við sex þúsund, að fimm stærstu liðunum frátöldum. José Mourinho er stærri en portúgalska deildin.

Fyrr frýs í helvíti

Real Madrid ákvað að hunsa krafta hans á dögunum og ráða Zinedine Zidane, goðumlíka stjörnu á Bernabéu en reynslulausan í stjórnun stórliða. Fyrr frýs í helvíti en að Mourinho verði ráðinn til Barcelona og Bayern Munchen hefur engan áhuga heldur. Þegar Pep Guardiola tilkynnti brottför sína var Carlo Ancelotti ráðinn þótt José Mourinho væri á lausu. Hann var ekki einu sinni boðaður í viðtal. Mourinho gerði á sínum tíma lítið úr Guardiola og sagði að búningadrengur gæti gert Bayern að meistunum. Slíkum ummælum gleyma menn ekki hjá Bayern.

„Ekki séns í helvíti“

Þá er farið að þrengjast um möguleika Mourinhos til að stýra stórliði. Paris Saint-Germain hefur verið nefnt til sögunnar. Laurent Blanc hefur byggt upp lið sem er að rúlla deildinni upp á mettíma og fullyrt er að hann sé með samningstilboð á borðinu. Daniel Taylor segist hafa spurt kollega sinn hjá L'Équipe hvort liðið sé ekkert spennt fyrir því að Mourinho sé á lausu. „Ekki séns í helvíti," var svarið, stutt og laggott.

Gagnkvæmt hatur á Ítalíu

Hvað þá með Ítalíu? Mourinho vann fimm titla á þremur árum með Internazionale og var dáður af leikmönnum sem hann leiddi til sigurs í Meistaradeildinni. Sjálfur hefur Mourinho sagt að honum líki ekki að starfa á Ítalíu. „Ég er ánægður hjá Inter. En ég er ekki ánægður með ítalska fótboltann því mér líkar illa við ítalska boltann og þeim er illa við mig. Svo einfalt er það."

Hótanir með tár á hvarmi

Daniel Taylor segir að allir viti að draumur Mourinhos sé að stýra Manchester United. Hann rifjar upp árlegan fund knattspyrnufréttamanna fyrir tveimur árum. Þar var Mourinho aðalræðumaður kvöldsins. Öll fjölskyldan var mætt og Mourinho hélt tilfinningaþrungna ræðu með tár á hvarmi. Hann var svo ánægður með að vera kominn aftur til Chelsea og að vera kominn aftur í ensku knattspyrnuna. Hún væri sú besta í heimi og þar ætti hann heima. En lokaorðin voru sérkennileg. „Þetta er ekki hótun. En ef Chelsea rekur mig verð ég áfram á Englandi og fer til keppinautar."

Ítrekaði hótanirnar

Mourinho endurtók þessa „hótun" á síðasta keppnistímabili þegar allt lék í lyndi og Chelsea var að vinna deildina með miklum yfirburðum. „Ef Roman Abramovich ákveður að reka mig einn daginn fer ég heim í húsið mitt í London og bíð eftir að annað lið úr úrvalsdeildinni hafi samband." Hann sagði að eingöngu bresk lið kæmu til greina.

Enginn áhugi á Mourinho

Manchester United hefur ekki jafnmikinn áhuga á Mourinho og hann hefur á Manchester United, þrátt fyrir afar dapurt gengi liðsins. Daniel Taylor telur að ástarsamband þeirra á milli verði aldrei að veruleika. Bayern vildi ekki Mourinho þegar hann var á lausu og Real Madrid vildi frekar Zidane. Önnur stórveldi eru ekki líkleg til að sækjast eftir kröftum hans. Manchester City er að undirbúa komu Pep Guardiola og myndi halda tryggð við Manuel Pellegrini ef það gengi ekki eftir. Arsenal fyrirlítur Mourinho á sama hátt og Barcelona og reyndar er ekkert fararsnið á hinum 66 ára Arséne Wenger. Liverpool réð nýlega Jürgen Klopp og þar hefur ekki verið áhugi á Mourinho.

Opinn fyrir tilboðum en eftirspurnin engin

Þegar Mourinho var rekinn frá Chelsea vildi hann helst taka strax við öðru liði í Englandi. Í yfirlýsingu segir að hann ætli ekki að taka sér frí frá knattspyrnu, hann sé í fullu fjöri og tilbúinn til að fást við nýjar áskoranir. Hann ætli að búa áfram á Englandi og fylgjast náið með ensku knattspyrnunni. Taylor segir að Mourinho hefði allt eins getað mætt með spjald um hálsinn þar sem segði að hann væri opinn fyrir tilboðum. Manchester United hefur enn ekki sýnt áhuga og raunar ólíklegt að það verði í bráð. Sú sérkennilega staða er því komin upp að engin eftirspurn er eftir þessum sigursæla knattspyrnustjóra, að minnsta kosti ekki hjá þeim liðum sem hann telur sér samboðin.

Skrautlegur ferill José Mourinho

Hér má lesa um vandræði José Mourinho hjá Chelsea og hér má lesa um skrautlegan feril þessa einstaka knattspyrnustjóra.

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Skrautlegur ferill José Mourinho

Íþróttir

Allt í steik hjá Chelsea