Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eiríkur Bergmann: „Nýtt kalt stríð brostið á“

26.03.2018 - 14:17
epa06603654 Russian President Vladimir Putin (L) listens to Stroygazmontazh director Leonid Ryzhenkin (R) as they are inspecting the road section of the road-rail Crimean Bridge over the Kerch Strait in Russia, 14 March 2018.  The Crimean peninsula was
 Mynd: EPA-EFE - EPA Pool
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að ákvörðun fjórtán Evrópulanda, Bandaríkjanna og Kanada um að reka rússneska diplómata úr landi vegna eiturgasárásinnar í Salisbury þýði að brostið sé á með nýju köldu stríði. Hafi menn haldið að hernámið á Krímskaga væri ekki upphafið að nýju köldu stríði sé staðfest að nú sé það raunin.

„Samskiptin eru algjörlega við frostmark og þetta er í raun ekki lengur spurning hvort það sé kalt heldur hvort það fari eitthvað að hitna,“ segir Eiríkur Bergmann. Munurinn á þessu kalda stríð og því fyrra er að nú eru það ekki lengur Bandaríkin sem leiða Vesturveldin í deilunni heldur miklu frekar Evrópusambandið og ríki þess með Breta enn innanborðs.

Aðspurður hvort búast megi við svipuðum aðgerðum frá íslenskum stjórnvöldum, segir Eiríkur að íslensk stjórnvöld hafi hallað sér þétt upp að Bretum í deilunni og utanríkisráðherra Íslands stillt sér upp með kollega sínum í breska utanríkisráðuneytinu. 

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi hjá utanríkisráðuneytinu, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um það hjá íslenskum stjórnvöldum hvort rússneskir diplómatar verði reknir úr landi. Grannt sé þó fylgst með framvindu málsins. Þá hefur sendiherra Rússlands ekki verið kallaður á fund utanríkisráðherra til að ræða stöðuna sem upp er komin.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að verið sé að skoða þessi viðbrögð Evrópulandanna, Bandaríkjanna og Kanada. Hún segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort boðað verði til fundar í nefndinni.

Meðal þeirra landa sem hafa ákveðið að vísa rússneskum diplómötum úr landi vegna eiturgasárásarinnar eru Þýskaland, Frakkland, Úkraína og Danmörk.

Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði á blaðamannafundi í dag að Rússar yrðu að koma að rannsókn málsins þar sem mörgum spurningum væri enn ósvarað. „Við krefjumst þess að Rússar aðstoði við að svara þeirri spurningu hvernig rússneskt eiturgas gat dúkkað upp í enskum bæ.“

Rússar hafa gefið í skyn að þeir muni svara þessum aðgerðum í sömu mynt.  Leiðtogar Evrópusambandsins sendu í síðustu viku frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að það væri mjög líklegt að Rússar hefðu staðið á bak við árásina. Rússar hafna þessum ásökunum og hafa gefið í skyn að eiturgasið sem var notað hafi komið frá breskri tilraunastofu.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV