Einungis sex þingmenn sem hafa ekkert sagt

15.01.2019 - 22:10
Mynd:  / 
Einungis sex þingmenn af sextíu og þremur eru metnir hæfir til þess að koma Klaustursmálinu áfram til siðanefndar Alþingis. Þrír eru úr Sjálfstæðisflokki, tveir úr VG og einn úr Miðflokki. Skipuð verður ný forsætisnefnd sem hefur þetta eina verkefni. 

Næstum allir vanhæfir

Þriðjudagskvöldið 20. nóvember settust sex þingmenn Flokks fólksins og Miðflokksins inn á barinn Klaustur í miðborg Reykjavíkur. Næstu tvær vikur komu þingmenn í röðum og tjáðu sig um það sem fram fór milli þingmannanna, bæði í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og á Alþingi. 

En þetta gerði það svo að verkum að allir þessir þingmenn, að allri forsætisnefnd meðtalinni, eru vanhæfir til að fjalla um málið efnislega. Því verður ný forsætisnefnd kosin, skipuð nokkrum þingmönnum, sem hefur það eina verkefni að koma Klaustursmálinu til siðanefndar þingsins. Nefndarmenn mega ekki hafa tjáð sig um málið opinberlega, á nokkurn hátt, svo ekki sé hægt að draga hæfi þeirra í efa. 

Sigurður Páll baðst undan nefndarstarfi

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru einungis sex þingmenn, af þeim 57 sem ekki sátu á Klaustri umrætt kvöld, sem koma til greina. Það eru Sjálfstæðismennirnir Haraldur Benediktsson, Óli Björn Kárason og Njáll Trausti Friðbertsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Ólafur Þór Gunnarsson, VG, og Miðflokksmaðurinn Sigurður Páll Jónsson. Hann hefur þó beðist undan verkefninu. Nefndin verður skipuð í næstu viku og til stendur að málinu verði lokið, með úrskurði siðanefndar, eftir um tvo og hálfan mánuð. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi