Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Einstakt tækifæri fyrir Ísland

Mynd: RÚV / RÚV

Einstakt tækifæri fyrir Ísland

17.03.2018 - 19:59
Íslendingar hafa aldrei staðið frammi fyrir jafngóðu tækifæri og nú til að koma hagsmunum þjóðarinnar á framfæri, segir sendiherra Íslands í Rússlandi. Mikill áhugi sé á landi og þjóð vegna þátttöku íslenska karlalandsliðsins á HM. Brýnt sé að stjórnvöld ákveði hvernig land og þjóð verði kynnt því nýta megi athyglina til að auka viðskipti við önnur lönd. 

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætti Kósóvó á Laugardalsvelli í október og hafði sigur. Og þar með varð nóg að gera í Sendiráði Íslands í Moskvu enda von á fjölda stuðningsmanna íslenska landsliðsins til Rússlands í sumar. 

„Það má segja að við höfum byrjað strax í október þegar við áttuðum okkur á þessum stórtíðindum. Við öflum upplýsinga eins og hvernig á að vera í sambandi við lögreglu og hvernig á að vera í sambandi við sjúkrahús. En síðast en ekki síst er áhuginn í Rússlandi á Íslandi ótrúlegur. Ég er búin að vera í viðtölum síðan í janúar að tala um Ísland. Þetta er einstakt tækifæri til að koma íslenskum hagsmunum á framfæri. Það sem við horfum mest á er þátttaka okkar í endurnýjun fiskiskipaflotans og fiskvinnslu í Rússlandi. Það var tekin stór ákvörðun um að fara í gríðarlegt átak og þarna höfum við Íslendingar akkúrat trúverðugleika út á okkar fiskveiðar og einstaklega góðan búnað,“ segir Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Rússlandi. 

Berglind segir að auka megi viðskipti vegna þátttöku Íslands í HM. „Það er ekki spurning. Athyglin verður á Íslandi um allan heim. Ég fullyrði að við höfum aldrei fengið svona tækifæri. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að við tökum umræðuna hérna heima: Hvað ætlum við að sýna? Hver er ímynd Íslands? Hvað getur áunnist? Ég held að þetta tækifæri komi ekki aftur,“ segir Berglind.

Ísland sé þekkt fyrir sjávarútveg, jafnrétti og orku. Berglind vill að fjallað sé um Ísland sem land nýsköpunar og hátækni. Milljarðar manna horfi á leikina og yfir 3500 blaðamenn verði í Rússlandi. Íslenskir ráðamenn verða þar einnig. Í svörum við fyrirspurn fréttastofu í febrúar kemur fram að menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra ætli til Rússlands. Óvíst er hvort Forseti Íslands verður á einhverjum leikum en þó er vitað að hann verður ekki á fyrstu tveimur leikjunum vegna annarra verkefna.

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Þátttaka á HM ekki í hættu vegna Skripal

Íþróttir

„Hver vill ekki sjá Gylfa mæta Messi?“

Íþróttir

Bara uppselt á fyrsta leik Íslands og úrslitin

Innlent

Rússar vilja fá 5 íslenska lögreglumenn á HM