„Eins og þegar einhver prumpar í lyftu“

Embla Guðrúnar- Ágústsdóttir - Mynd: ÞÓL / RÚV

„Eins og þegar einhver prumpar í lyftu“

16.01.2017 - 16:07

Höfundar

„Við þekkjum öll þessi vandræðalegu augnablik. Eins og þegar við erum inni í lyftu og einhver prumpar. Það er ógeðslega óþægilegt,“ segir Embla Guðrúnardóttir Ágústsdóttir um algenga líðan fatlaðs fólks í félagslegum aðstæðum; þegar nærvera þeirra veldur því að hegðun og framkoma ófatlaðra einkennist af vandræðagangi, klaufaskap og jafnvel vingjarnlegri útskúfun. Lokaverkefni Emblu í félagsfræði við HÍ fjallar um ógn fatlaðs fólks við félagslegan stöðugleika.

Embla skoðaði félagslega stöðu fatlaðs fólks í almennum rýmum og skoðaði hvaða áhrif og afleiðingar það hefur á fatlað fólk að verða fyrir ítrekaðri áreitni og yfirlæti. Áreitnin er allskonar og mismikil, er jafnvel ætlað að vera vingjarnleg og jákvæð.

Embla tekur dæmi þar sem ófatlaðir hrósi fötluðu fólki fyrir að gera hversdagslega hluti, eins og að ferðast, sækja skóla og vera úti á lífinu. Þá skynji fatlað fólk gjarnan að öðrum finnist óþægilegt að eiga í samskiptum við það, skynji óöryggi og vandræðagang. Þetta valdi fötluðum manneskjum óþægindum, því finnist það vera jaðarsett og vanmáttugt.

Þórhildur Ólafsdóttir ræddi við Emblu í Samfélaginu á Rás 1.