Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eins og lítið spegilbrot úr fljóti tímans

Mynd: Samsett mynd / RÚV

Eins og lítið spegilbrot úr fljóti tímans

27.11.2017 - 11:16

Höfundar

„Ég hef áhuga á þessu samtali, ég hef áhuga á öllu sem tengist þessum degi,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson, um 6. október árið 2008 og símtalið fræga, milli Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar. Sú litla mynd sem dregin er upp í afriti símtalsins sem birtist á dögunum er ef til vill aðeins eins og lítið spegilbrot sem veitt er upp úr fljóti tímans og segir þeim sem á því heldur sama og ekki neitt.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

-  En við mynd­um skrapa, Kaupþing þarf þetta í dag til að fara ekki á haus­inn.
-  Já, en það er spurn­ing með þá, fer þá Lands­bank­inn í dag?
-  Já, þá myndi hann fara í dag á haus­inn vænt­an­lega.
-  Og Glitn­ir á morg­un?
-  Og Glitn­ir á morg­un.
-  Já.
-  Lands­bank­an­um verður vænt­an­lega lokað í dag bara.
-  Já.
-  Við vit­um ekki, reynd­ar vit­um við ekki hvort það er árás á Kaupþing Edge. Við ger­um ráð fyr­ir því þeir hafa ekki sagt okk­ur það ennþá. 
-  Er það á Ices­a­ve?
-  Það eru farn­ar 380 millj­ón­ir út af Ices­a­ve punda og það eru bara 80 milljarðar.
-  Þeir ráða aldrei við það, sko. 
-  Nei, þeir ráða aldrei við neitt af því, sko, en þetta er það besta leiðin ef við get­um af­skrifað all­ar skuld­ir þjóðar­inn­ar þó að það muni valda vand­ræðum í Evr­ópu þá en þeir bara hjálpuðu okk­ur ekki neitt þannig að það er ha...
-  Já, já.
-  Þannig að þetta er nú... 

Þetta er brot úr samtali forsætisráðherra og formanns bankastjórnar Seðlabankans hinn 6. október 2008, Guð blessi Ísland-daginn. Afrit af símtalinu var birt á síðum Morgunblaðins á laugardag en eins og flestir vita hefur þetta símtal þótt gegna lykilhlutverki í þeirri ákvörðun stjórnvalda að lána Kaupþingi 500 milljónir evra, ógurlega fjárhæð sem meira og minna hvarf um leið og einhver ýtti á millifæra-takkann uppi í Seðlabanka, og hefur ekki sést síðan.

Samtalið var síðan, eins og áður sagði, loksins birt upp úr þurru á síðum Moggans á laugardag og líklega segir það ansi mikið að umræðan síðan þá hefur meira og minna ekki snúist um innihald símtalsins og orð mannanna heldur þá staðreynd að annar þeirra hafi greinilega átt afritið allan þennan tíma og kosið að sitja á því, áður en hann svo kaus að birta það í fjölmiðlinum sem hann ritstýrir.

Ég hef áhuga á þessu samtali, ég hef áhuga á öllu sem tengist þessum degi. Ég hef gengið svo langt að líkja efnahagshruninu við okkar eigið Kennedy-morð, að þetta sé viðburður sem breytir öllu samfélaginu og býr til viðvarandi paranoju og vantraust, meðal annars vegna þess að það var grafið undan þeirri mýtólógíu sem íslensk sjálfsmynd er að miklu leyti reist á. Og ég hef jafnvel næstum því gengið svo langt að líkja efnahagshruninu við okkar eigin 11. september, þó svo ég geri mér grein fyrir því hversu grótesk og yfirgengileg sú samlíking er. En það muna allir hvar þeir voru þegar 11. september varð og það muna líka allir hvar þeir voru þegar þeir heyrðu Guð blessi Ísland ávarp Geirs Haarde og það er vissulega vísbending um merkinguna. Þessir atburðir fléttuðust loks saman þegar Bretar beittu hryðjuverkalöggjöf til að frysta eignir Landsbankans. Þar komu saman þessir tveir atburðir, stríðið gegn hryðjuverkum sem á rót sína að mestu leyti í ellefta september og íslenska bankaútrásin, sem aftur var birtingarmynd alþjóðavæddrar markaðshyggju, sem aftur var að einhverju leyti rótin að 11. september. Svona er heimurinn hringiða, þar sem geópólitískir atburðir bíta í skottið hver á öðrum og dansa í hringi, aftur og aftur.

Eitt sem okkur vantar auðvitað algjörlega í þetta samtal er samhengi. Höfðu þeir talað saman oft þarna á undan og eftir. Er þessi litla mynd sem þarna er dregin upp bara eins og lítið spegilbrot sem veitt er upp úr fljóti tímans og segir þeim sem á því heldur sama og ekki neitt?

Hvernig sagði Geir Haarde orðið „Já“ þegar Davíð segir við hann að Glitnir fari þá á morgun.

Það er auðvitað ekki sama hvernig við segjum hlutina. Sagði hann JÁ, eða Já, eða jáh?

En það litla sem maður getur ályktað út frá þessu samtali þeirra Geirs og Davíðs, algjörlega óháð því hvernig þeir létu hlutina út úr sér, er að það virðist vera, að minnsta kosti í augum leikmanns eins og mín, að þeir hafi vitað að allir bankarnir væru á leiðinni norður og niður. Það er ekki að sjá að forsætisráðherra taki beinlínis andköf þegar seðlabankastjóri staðfestir að Glitnir og Landsbankinn muni fjúka út í hafsauga morguninn eftir.

Af hverju er síðan síðasta gjaldeyrinum sem er til í landinu „skrapað saman“ svo notuð séu orð seðlabankastjóra til þess að hægt sé að veita honum inn í þann fjárhagslega skrípaleik sem kallaður var Kaupþing þar sem hann svo hvarf eins og við var að búast. Af hverju var svona mikilvægt að setja peningana þangað en fullkomlega sjálfsagt að leyfa Landsbankanum og Glitni að rúlla daginn eftir. Þar verður lesandi samtalsins að geta í eyðurnar. Geir Haarde segir einfaldlega að þetta „slái hann þannig sko“, bara svona eins og eftir tilfinningu, á sama hátt og maður velur sér útvarpsstöð undir stýri. Davíð segist búast við því að þessir peningar fáist ekki til baka, staðhæfingar um annað séu „ósannindi“ eða í besta falli „óskhyggja“ og svör Geirs eru meira og minna já og jú jú og eru þeir ekki með einhver veð og svo framvegis.

Maður getur ekki annað en ályktað en að innihald samtalsins sé í raun svona rýrt vegna þess að þarna voru ekki tveir embættismenn að hringjast á til að taka ákvörðun. Það var búið að taka hana fyrirfram, þess vegna er þetta lítið annað en við skröpum þessu saman, aha, já, 100 milljarðar, Sundahöfn og spítalinn, jú jú, já, einmitt, þetta fæst pottþétt ekki aftur og við verðum þá komin inn að beini, já, aha, jú jú, og hinir bankarnir falla þá á morgun og þjóðfélagið fer á hausinn, akkúrat, jú, einmitt, segðu, þú kannski kemur á fundinn, já jú jú, akkúrat, bara hérna niðri í stjórnaráði, já jú jú, segðu.

Annað sem slær grunlausan lesanda samtalsins, sem, aftur, þekkir ekki samhengið eða raddblæinn og hefur ekkert fyrir framan sig annað en orð á blaði, er að mennirnir tveir, sem þarna ræða um að taka síðustu peningana sem til eru í landinu til þess að veita þeim inn í banka sem þeir vita að ekki er hægt að bjarga, virðast heldur ekkert hafa neinar sérstakar pælingar um það í hvað þessir peningar eigi að fara þegar þeir eru komnir í hendur bankans. Það er aldrei rætt um það, bara einfaldlega að skrapa eigi saman tugum milljarða króna handa Kaupþingi. Af hverju var ekki sjálfsagt að hann fengi að rúlla líka eins og Landsbankinn og Glitnir? Af hverju var það viðunandi að setja þessa yfirgengilegu fjárhæð inn í þessa martröð af banka þegar þeir virðast hafa verið fullmeðvitaðir um að bankinn myndi ekki lifa af næstu 4-5 daga? Ja, enginn veit.

Og ég ætla ekki að láta hér eins og ég geti dregið einhverja meiriháttar ályktanir af þessu samtali eða hvað nákvæmlega var á seyði í höfðinu á þessum tveimur valdhöfum. Ég hef samúð með þeim – að hafa verið í þessari aðstöðu og þurft að taka risastórar ákvarðanir þegar íslenskt samfélag var að sogast fram af hengiflugi óvissunnar.

En það eina sem maður getur sagt sér á þessu stigi máls, án þess að vilja gefa sér nokkurn skapaðan hlut, er að það er eitthvað mjög furðulegt við þetta allt saman, það er eitthvað mikið þarna ósagt, eins og í skáldskap er í samtalinu ekki talað um hið raunverulega viðfangsefni þess. Ákvörðunin var tekin í hljóði, annars staðar, á öðrum tíma. Við þráum að skilja hana, átta okkur á því hvað olli þessu öllu saman, vegna þess að við þurfum að heyra það til þess að geta haldið áfram og það versta er kannski tilhugsunin um að kannski sé ekkert sérstakt að vita, kannski hafi forsendan ekki verið nein sérstök, það sé hvorki samsæri né vitræn ástæðan, þarna hafi bara íslenskir valdhafar verið að gera eitthvað til þess að gera eitthvað, vegna þess, svo enn og aftur sé á þessum vettvangi vitnað til orða Camus úr Fallinu, að eitthvað þarf að gerast, það er það eina sem við vitum um heiminn. Eitthvað mun gerast vegna þess að eitthvað þarf að gerast.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Á að hreinsa listheiminn af hinu óæskilega?

Stjórnmál

Við bíðum öll afhroð einn daginn

Menningarefni

Það skiptir máli hvað þér finnst um lögin

Menningarefni

Dansað til að muna