„Eins og eitthvað hafi verið tekið frá þeim“

20.02.2017 - 14:51
Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir / Arnhildur Hálfdánardóttir
Það eru margir sem vita ekki að þeir eru af Samaættum og þegar þeir komast að því finnst þeim eins og eitthvað hafi verið tekið frá þeim. Þetta segir Aili Keskitalo, fyrrverandi forseti Samaþings Noregs. Í heila öld neyddu Norðmenn Sama til þess að tala norsku og taka upp norska hætti. Sárin sem stefnan, sem kölluð var Fornorskingen, skildi eftir sig eru enn ekki gróin að fullu. Á síðastliðnum fjórum áratugum hafa Samar barist fyrir auknum réttindum og orðið nokkuð ágengt.

Enn er þó víða pottur brotinn og bil milli löggjafar og veruleika. Baráttumál Sama í dag eru í raun þau sömu og fyrir 100 árum síðan. 

Bönnuðu Sömum að tala tungumál sitt

„Norðmenn lögðu heimaland okkar Sápmi, undir sig fyrir nokkur hundruð árum og síðan hafa Norðmenn og Samar búið hlið við hlið, segir Aili Keskitalo. Um miðja nítjándu öld tóku norsk stjórnvöld upp harða samlögunarstefnu, það átti að kristna Samana og gera þá norska. Stjórnvöld bönnuðu Sömum alfarið að tala tungumál sitt og börn voru ung send á heimavistarskóla, sú reynsla sat í mörgum. Börnum var bannað að tala samísku í skólum fram til ársins 1959. Samlögunarstefnan lagðist af í byrjun áttunda áratugarins en áhrifanna gætir enn að sögn Keskitalo. Hún hefur markað líf hennar. Foreldrar Keskitalo töluðu báðir samísku en þeir töluðu norsku við hana þegar hún var barn þar sem þeir töldu það vera henni fyrir bestu.

Keskitalo náði að snúa þróuninni við. Hún lærði tungumálið og talar það við börnin sín. „Þetta er hluti af hreyfingu Sama í Noregi,“ útskýrir hún, við erum að reyna að vinda ofan af áhrifum þessarar stefnu.

Skammast sín enn

Hún segir að margir af eldri kynslóðinni skammist sín enn fyrir uppruna sinn að einhverju leyti. Því var haldið að þeim í uppvextinum að Samar væru óæðri Norðmönnum, frumstæðir. Þá hafi margir haldið upprunanum leyndum fyrir börnum sínum. Margir séu fyrst á fullorðinsaldri að komast að því að þeir séu af Samaættum. „Fólk upplifir þá gjarnan að eitthvað hafi verið tekið frá því,“ segir Keskitalo. „Að það hafi verið blekkt. Það er sorglegt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir

Else Grete Broderstad er prófessor við UIT-háskólann í Tromsö og forstöðumaður miðstöðvar samískra fræða. Hún segir að skriður hafi komist á réttindabaráttu Sama í lok áttunda áratugarins. Ríkið hugðist þá virkja Alta-ána í Finnmörku og Samar mótmæltu af hörku, hlekkjuðu sig við vinnuvélar og fóru í hungurverkfall fyrir framan stjórnarráðið í Osló. Áin var virkjuð en mótmælin urðu til þess að stjórnvöld komu á fót nefnd um réttindi Sama og sú nefnd leiddi til þess að Samaþingið var stofnað.

Mynd með færslu
 Mynd: nrk
Alta-mótmælin.
Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Else Grete Broderstad.

Broderstad segir að Samar hafi í raun tapað baráttunni en unnið stríðið. Samar kalla níunda áratuginn þöglu byltinguna. Auk þess að stofna Samaþingið innleiddu stjórnvöld svonefnt Samaákvæði í stjórnarskrána og fullgiltu sáttmála Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttindi frumbyggja. Á tíunda áratugnum óx Samaþinginu fiskur um hrygg. Samstarf Samaþingsins og Stórþingsins varð til þess að lög um landnotkun í Finnmörku, nyrsta héraði Noregs, voru samþykkt árið 2005 og sama ár gerðu Stórþingið og Samaþingið með sér samning sem felur í sér að Stórþingið þarf að ráðfæra sig við Samaþingið í tengslum við allar ákvarðanir sem varða Sama. 

Skera sig ekki mikið úr

Broderstad segir að Samar skeri sig ekki mikið úr í dag, þeir lifi svipuðu lífi og norski meirihlutinn, flestir séu kristnir og tjaldbúðir heyri sögunni til. Sérstaða þeirra felst meðal annars í tungumálinu, hún segir mikla meðvitund meðal Sama um mikilvægi þess að varðveita samísku tungumálin, sem sum eru í hættu. Það séu námskeið í boði, bæði fyrir Sama og þá sem vilji læra samísku sem annað mál, börn og fullorðna. Helsta hindrunin er skortur á kennurum. „Við getum ekki neytt unga fólkið til þess að afla sér kennsluréttinda,“ segir hún.

Stundum með þeim í liði, stundum ekki

En hvernig reynast norsk stjórnvöld Sömum í dag? Það er upp og ofan segir Aili Keskitalo. Stundum séu stjórnvöld með þeim í liði en stundum hunsi þau hagsmuni þeirra. Menningarleg og tungumálaréttindi Sama líti til dæmis frábærlega út á pappír, öll Samabörn í Noregi eigi að geta lært Samí í skólanum. Raunin sé þó allt önnur. Í Osló fá um 40 börn kennslu í Samí í skólanum, Keskitalo segir að þau ættu að vera mörg hundruð, jafnvel mörg þúsund. Samar eiga rétt á því að eiga í samskiptum við hið opinber á samísku, á vissum svæðum, en sá réttur sé ekki alltaf virtur. Fyrirspurnum sé stundum svarað á norsku. Þá tala læknar á svæðum þar sem Samar eru í meirihluta ekki alltaf samísku.

Íbúar Suður-Noregs skilji ekki 

Keskitalo segir að Samar á hefðbundnu Sama-svæðunum í Norður-Noregi hafi ekkert að segja um hvort ráðist verði í jarðefnavinnslu á heimaslóðum þeirra og að þeir fái engan hlut í ágóða af slíkri starfsemi. Löggjöfin sé ótæk. Þetta sé stórmál á norska Samaþinginu. Íbúar í Suður-Noregi virðist oft halda að í Norður-Noregi séu stór, auð landsvæði sem enginn nýti, það sé mikill misskilningur. Samarnir noti hvern einasta fermetra, hreindýrin þurfi víðfeðm beitarlönd.

Tungumálið og hreindýraræktin nátengd

Keskitalo segir að hreindýrarækt sé mikilvæg efnahagsleg undirstaða á mörgum svæðum sem Samar byggja. Þá bendir hún á að tungumál þeirra sé nátengt hreindýrarækt. Það sé erfitt að aðskilja þetta tvennt og til að tungumálið lifi af, þurfi hreindýraræktin að gera það líka. 

Mátti ekki eiga 116 hreindýr

Einungis um einn af hverjum tíu Sömum stunda hreindýrarækt í dag. Nýlega stefndi ungur Sami, Jovsset Ánte Sara, ríkinu eftir að það krafðist þess að hann fækkaði hreindýrum í hjörð sinni úr 116 í 75, vegna hættu á ofbeit. Þetta er í fyrsta sinn sem Sami fer í mál við ríkið af þessum ástæðum en deilur af þessum toga eru engin nýlunda. Hreindýrahirðirinn ungi segist neyðast til að snúa sér að öðru, tapi hann málinu. Þá fækkar þeim sem viðhalda hefðinni um einn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Riddu Riððu.

Broderstad og Keskitalo sammælast um að þekking Norðmanna og viðhorf til Sama hafi breyst. Menning Sama er orðin sýnilegri en áður til dæmis fyrir tilstilli alþjóðlegu menningarhátíðarinnar Riddu Riððu, sem haldin er hvert sumar í Manndalen í Troms-fylki.

Myndu gjarnan vilja ráða sér sjálfir

Þegar Keskitalo var að alast upp var einsleitnin allsráðandi, nú læra börn um Sama og fjölmenningu í skóla. Keskitalo segir þekkingu Norðmanna á menningu Sama þó enn of takmarkaða. Það myndi að hennar sögn auðvelda Sömum lífið heilmikið ef Norðmenn hefðu meiri skilning á sérstöðu þeirra og því hversu mikið þeir eiga undir náttúrunni. Þá ættu þeir auðveldara með að útskýra þarfir sínar. Hún segir að Samar myndu gjarnan vilja ráða sér sjálfir en þeir þurfi að reiða sig á samvinnu við norsk stjórnvöld. Á skilning og stuðning meirihlutans.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons

Sömu hitamál og fyrir hundrað árum

Um helmingur Sama býr í Noregi, um 40 þúsund manns. Þeir búa þó líka í Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Einungis helmingur þeirra talar Samí, tungumál sem er skylt finnsku, ungversku og eistnesku. Í byrjun febrúar fögnuðu Samar því að öld var liðin frá því að fulltrúar Sama frá þessum ríkjum hittust fyrst til að funda um málefni þeirra. Málefnin sem brenna á okkur nú eru að miklu leyti þau sömu og fyrir hundrað árum, segir Keskitalo. Tungumálið, menntunin og rétturinn til að nýta landið og auðlindirnar. 

Arfleifð Samanna lifi áfram

Broderstad segir að Samar hafi alla tíð barist fyrir réttindum sínum og sérstöðu, þó nútímaréttindabarátta þeirra hafi hafist á áttunda áratugnum. Hafi sagan kennt þeim eitthvað sé það að þeir gefist ekki upp. Hún hefur því ekki áhyggjur af því að hefðir og menning Sama deyi út. Þó sé ekki hægt að taka þeim árangri sem hefur náðst sem gefnum, sofna á verðinum, hlutverk háskólans sé þar mikilvægt. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi