Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eins og Bítlarnir –Á réttum stað á réttum tíma

Mynd: Forlagið / Forlagið

Eins og Bítlarnir –Á réttum stað á réttum tíma

19.06.2017 - 16:30

Höfundar

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur, var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2017, við athöfn í Höfða síðastliðinn laugardag. Hún segir heppni og tilviljanir hafa leikið stórt hlutverk í lífi sínu.

Þrjár á þingi

Guðrún hefur komið víða við, en líklega er hún þekktust fyrir barnabækur sínar, sem heillað hafa margar kynslóðir, bæði barna og fullorðinna. Guðrún sat einnig á Alþingi og var fyrst kjörin 1979, en hún var forseti Alþingis 1988-1991, fyrst kvenna til að gegna því embætti í sameinuðu þingi.

„Við vorum þrjár þegar ég settist inn á þing. Þá var nýbúið að búa til kvennaklósett á Alþingi. Það hafði verið uppi á hanabjálka, einhver kló sem konur gátu farið á, en klósettið var auðvitað bara fyrir karlmenn,“ segir Guðrún sem talar þó fallega um samstarfsfélaga sína. „Ég upplifði það aldrei nema bara sem hvern annan vinnustað, þar sem kurteist, fullorðið fólk vann saman. Ég varð aldrei fyrir neinu aðkasti sem kona á þingi, alls ekki. Mér gekk vel að fá mínum málum framgengt á þinginu, en þetta varð auðvitað mikil breyting þegar konum fjölgaði svona inni á þingi.“ 

Konurnar betur undirbúnar

Guðrún segir helsta muninn á konum og körlum á þingi hafa verið sá, að konur undirbjuggu sig betur. „Við töluðum gjarnan með tilbúnum ræðum. Og það var held ég bara til bóta að koma svolítið vel undirbúinn.“

Guðrún tíundar leið sína inn á þing, sem hún segir að einhverju leyti hafa ráðist af tilviljunum, en hún nefnir líka að vinsældir hennar hafi aukist töluvert í þjóðfélaginu eftir útkomu fyrstu bókarinnar um tvíburabræðurna Jón Odd og Jón Bjarna. 

Lélegar barnabækur urðu hvatinn að tvíburabræðrunum

„Þegar ég byrjaði að skrifa Jón Odd og Jón Bjarna var ég komin með þrjú lítil börn og var bara heimavinnandi húsmóðir - það var ekkert bara reyndar, því það var nú full vinna - og eins og allar mömmur sem vilja börnum sínum vel þá fór ég náttúrlega á bókasafnið til að sækja bækur til þess að lesa fyrir blessuð börnin og varð alveg skelfingu lostin að sjá hvað illa var að því búið,“ segir Guðrún sem fljótlega fór að spinna sögur um tvíburadrengina fyrir börnin sín. „Því börn vita nefnilega ekkert betra, heldur en að njóta einhvers með fullorðnu fólki.“ 

Og eitt leiddi af öðru, líkt og með pólitíska feril Guðrúnar, það fór að fréttast um bæinn að húsmóðir nokkur í Reykjavík segði svona skemmtilega frá uppátækjasömum ungum drengjum - og þar kom að því að Silja Aðalsteinsdóttir, sem frétti það frá sínum börnum, hafði samband og bað Guðrúnu um að setja þessar sögur saman fyrir barnatímann í útvarpinu. „Og þetta gerði satt að segja alveg ótrúlega lukku, og ekki leið á löngu áður en Valdimar Jóhannesson í Iðunni hringdi í mig og spurði mig hvort hann mætti skoða þessa bók.“

Bestu bækurnar eru bæði fyrir börn og fullorðna

Og framhaldið þekkja allir. Jón Oddur og Jón Bjarni unnu hug og hjörtu bæði barna og fullorðinna, sem nutu sagnanna af þeim sem jafningjar, en Guðrún segir að það sé lykillinn að góðum barnabókum. 

Feikivinsæl kvikmynd Þráins Bertelssonar eftir bók Guðrúnar staðfesti sess uppátækjasömu tvíburanna í íslenskri þjóðarsál.

„Mér fannst nefnilega svo oft að fullorðið fólk talaði niður til barna, talaði um börn við aðra svo þau heyrðu og sýndi þeim afskaplega oft lítilsvirðingu. Svo inngangurinn að þessari bók um Jón Odd og Jón Bjarna er auðvitað sá, að börn eru líka fólk.“

Á réttum stað á réttum tíma

Guðrún segir að á þessum tíma hafi samfélagið verið að uppgötva að góðar barnabækur seldust betur heldur en vondar. 

„Ég hef stundum sagt að ég hafi verið svolítið heppin. Ég var eins og Bítlarnir, ég var á réttum stað á réttum tíma. Þannig að ég kom alveg ofan í þessa kröfu um að vanda betur það sem var borið á borð fyrir börn.“ Guðrún þakkar bókasafnsfræðingastéttinni þessa vitundarvakningu, og eins barnakennurum. „Þessu fólki verður aldrei fullþakkað.“

Enginn er of ungur fyrir bækur

„Það er aldrei of snemma farið að lesa fyrir börn. Lesturinn þroskar börnin, veitir þeim bæði málþroska og andlegan þroska á allan hátt,“ segir Guðrún og bætir við að lesturinn efli ást og væntumþykju. „Í fyrsta lagi á þeim sem les, sem er þá væntanlega foreldri sem leyfir barninu að hallast upp að hlýju fangi sínu og hlýða á sögu, og svo á landi sínu og þjóð og íslenskri tungu. Og ef við ætlum að halda tungumálinu okkar við, þannig að við eigum áfram íslenska tungu, þá verðum við að byrja á að kenna börnunum okkar að meta hana og elska hana.“

Halla Þórlaug Óskarsdóttir ræddi við Guðrúnu Helgadóttur í Víðsjá. 

Tengdar fréttir

Innlent

Guðrún Helgadóttir borgarlistamaður